Hamraneshverfið heillar – mikil eftirspurn eftir lóðum

Fréttir

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar úthlutaði í gær sex lóðum í fyrsta áfanga uppbyggingar í Hamranesi, 25 hektara svæði við uppland Hafnarfjarðar. Sóttist einn byggingaraðili eftir öllum sex lóðunum en fjórir aðilar hlutu úthlutun að þessu sinni. Um er að ræða úthlutun þriggja lóða til Byggingarfélags Gylfa og Gunnars og stakra lóða til Fjarðarmóta ehf., Valhúsa ehf. og Drauma ehf.  Þar með er úthlutun allra reita og lóða í fyrsta og öðrum áfanga lokið.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar úthlutaði í gær sex lóðum fyrir 148 íbúðir í fyrsta áfanga uppbyggingar í Hamranesi, 25 hektara svæði við uppland Hafnarfjarðar. Sóttist einn byggingaraðili eftir öllum sex lóðunum en fjórir aðilar hlutu úthlutun að þessu sinni. Um er að ræða úthlutun þriggja lóða til Byggingarfélags Gylfa og Gunnars og stakra lóða til Fjarðarmóta ehf., Valhúsa ehf. og Drauma ehf. Þar með er úthlutun allra reita og lóða í fyrsta og öðrum áfanga lokið. 

  • Hringhamar 1 – Byggingarfélags Gylfa og Gunnars
  • Hringhamar 3 – Fjarðarmót ehf.
  • Hringhamar 7 – Draumar ehf.
  • Nónhamar 2 – Byggingarfélags Gylfa og Gunnars
  • Nónhamar 4 – Byggingarfélags Gylfa og Gunnars
  • Nónhamar 8 – Valhús ehf.


„Við þessa úthlutun eru farnar nýjar leiðir í skipulagsvinnu á svæðinu sem miða að því að fá öfluga aðila með bæjarfélaginu í allt ferlið, frá skipulagsvinnu til framkvæmda. Markmiðið er að mæta enn betur þörfum markaðarins og jafnframt að lágmarka þann tíma sem fer í endurskipulagningu og skipulagsbreytingar eftir að uppbygging er farin af stað. Ekki ber á öðru en að þessi hugmyndafræði falli í góðan jarðveg og er eftirspurn eftir lóðum mikil þrátt fyrir óvenjulegar aðstæður á markaði. Það er því greinilegt að hönnuðir og byggingaraðilar sjá möguleikana á svæðinu, auk þess sem uppbygging og kaup á lóðum í Skarðshlíð bera vott um vilja íbúa til að byggja sér framtíðarheimili við uppland Hafnarfjarðar,“
segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar. Byggð í Skarðshlíðarhverfi, sem liggur við Hamranesið, rís hratt þessa dagana. Þegar er komin tveggja ára reynsla á rekstur grunnskóla í hverfinu og leikskóli var opnaður fyrir einu ári síðan. Gert er ráð fyrir að íþróttahús og útibú tónlistarskóla verið afhent í sumar.

Hamranesið mun telja um 1500 íbúðir – þétt byggð með hagkvæmu húsnæði

Uppbygging í Hamranesinu skiptist í þrjá áfanga og mun svæðið í heild telja um 1500 íbúðir. Þegar hefur úthlutun átt sér stað og lóðarvilyrði verið veitt fyrir öllum reitum og lóðum í fyrstu tveimur áföngum uppbyggingar. Á fundi sínum 29. apríl sl. samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar fyrirliggjandi tillögu um úthlutun þriggja reita í öðrum áfanga til Lifandi samfélags fyrir 70 íbúðir, Arkþings – Þingvangs fyrir 70 íbúðir og Skipan fyrir 100 íbúðir. Eftir stendur því einungis þriðji áfangi uppbyggingar á svæðinu og er hugmynda- og grunnskipulagsvinna fyrir lokaáfangann þegar komin vel á veg. Engin byggð er á svæðinu í dag en þar mun rísa þétt byggð með hagkvæmu húsnæði sem lagar sig að landslaginu. „Hér er um að ræða eitt mest spennandi byggingarsvæði höfuðborgarsvæðisins og greinilegt að verktakar og væntanlegir framtíðaríbúar eru að átta sig á kostum þess og möguleikum. Ásvallabraut og nýtt leiðarnet Strætó sem fer í kynningu á næstu dögum munu auka eftirspurnina enn frekar,“ segir Rósa. Gert er ráð fyrir að fyrstu íbúðir í Hamraneshverfi fari í sölu innan tveggja ára.

Mynd: Hér má sjá fyrsta áfanga uppbyggingar í Hamranesi neðst á mynd og hvernig nýtt hverfi liggur við Skarðshlíðarhverfi / Onno ehf  

Ábendingagátt