Handbók um undirbúningstíma á leikskólum

Barnvænt sveitarfélag Fréttir

Handbók sem gefur hugmyndir um hvernig best megi nýta undirbúningstíma fyrir leikskólakennara er komin út. Bókin er samstarfsverkefni Hafnarfjarðarbæjar, Reykjavíkur og RannUng. Leikskólakennarar hafa tíu stundir á viku til að efla starfið í skólunum sínum.

Hugmyndahandbók fyrir undirbúninginn

Leikskólakennarar eru almennt ánægðir með undirbúningstímann í starfi sínu, en hann var aukinn árið 2019. Nú hafa deildarstjórar í fullri vinnu á leikskóla 10 klukkustundir á viku sem gefur þær þeim tækifæri til að sinna verkefnum betur. Þetta kemur fram í handbók sem gefur hugmyndir um hvernig best megi nýta undirbúningstíma leikskólakennara.

„Hins vegar eru ákveðin vandræði tengd aðstöðuleysi til að vinna í ró og næði,“ segir í hugleiðingum um undirbúningstímann í hugmyndabók sem unnin var af Hafnafjarðarbæ, Reykjavík og RannUng – Rannsóknarstofu í menntunarfræðum ungra barna, sem hefur aðsetur í Háskóla Íslands.

Fulltrúar leikskóla Hafnarfjarðar, Reykjavíkur og starfsmenn RannUng hér saman á mynd.

Uppskeruhátíð í Hafnarborg

Útgáfuhóf hugmyndabókarinnar var haldið í Hafnarborg í síðustu viku. Í skýrslunni eru settar fram tillögur að því hvernig nýta megi tímann til þess að auka fagmennsku leikskólakennara og gæði leikskólastarfs. Byggt er á reynslu deildarstjóra í níu leikskólum.

Í hugleiðingunum segir að miklu skipti að leikskólakennarar njóti virðingar og trausts til að stjórna undirbúningstíma sínum. „Það felur í sér að þeir hafi frelsi til að ákveða hvað þeir gera í undirbúningnum og hvar hann fer fram en á sama tíma er mikilvægt að viðhalda gegnsæi milli starfsmanna.“ Stjórnendur þurfi að vera meðvitaðir um að kennarar nýti undirbúningstímann á árangursríkan hátt og jafnframt þurfi þeir að hafa vald til að veita leiðsögn ef kennarar eiga erfitt með að nýta tímann.

Allt í þágu barnanna

Lagt er áherslu á undirbúningur sé í þágu barnanna. „Undirbúningur ætti aldrei að bitna á líðan barna. Ef undirmönnun á deild veldur því að undirbúningur hefur neikvæð áhrif á börnin þarf að sleppa undirbúningnum eða leysa málið á annan hátt. Líðan og hagur barnanna eiga alltaf að vera í fyrirrúmi,“ segir í hugmyndabókinni. Eins og segir í lokum í skýrslunni: „Mikilvægt er að skipulag undirbúnings sé sveigjanlegt en samt skýrt með hagsmuni barnanna að leiðarljósi.“

 

Ábendingagátt