Hátíðarstreitan líður úr í Herjólfsgufunni

Fréttir Jólabærinn

Mæðgurnar Lára Alda Alexandersdóttir og Silja Þórðardóttir lærðu saman að verða gusumeistarar. Þær nota kraftana í Herjólfsgufunni við Langeyrarmalir.

Jólin í Hafnarfjarðarbæ

„Herjólfsgufan verður griðastaður hjarta og líkama í aðdraganda jólanna. Staður þar sem streitan líður úr þér,“ segir Silja Þórðardóttir, gusumeistari og einn eigenda Herjólfsgufunnar, sem fór ásamt móður sinni Láru Öldu Alexandersdóttur á námskeið í gusustjórnun á Snæfellsnesi í fyrravor.

Lára, uppalin í Ólafsvík, ætlaði að keyra um heimahagana á meðan dóttirin svitnaði í sánunni. Plönin breyttust, hún tók óvænt þátt í námskeiðinu og stýrir nú gusum í gufunni fyrir eldri aldurshópinn vikulega. Lára segir reynsluna ómetanlega.

„Það nærir okkur að sitja með ókunnugu fólki og spjalla um heima og himingeima. Standa úti á sundfötum og horfa á hafið.“

Tengslin styrkt í gufunni

Fyrsta gusa Herjólfsgufunnar við Langeyrarmalir var seinni hluta maímánaðar. Silja, sem hefur stúderað velsældarfræði, lærir list og velferð í Listaháskólanum og hefur lært jákvæða sálfræði, segir öll fræðin bræðast saman í gufunni.

„Tengsl eru sammerkt í öllum þessum fræðum og þau eflast í gufunni.“ Tengsl þeirra mæðgna styrktust enn með Herjólfsgufuævintýrinu.

„Við mamma erum mjög nánar,“ segir hún og að lífið hafi breyst þegar Þórður faðir hennar lést fyrir þrettán árum og móðir hennar flutti heim eftir vel á annan tug ára erlendis – í Washington og Barbados. Silja segir móður sína smátt og smátt hafa fundið sinn farveg og Lára tekur undir það.

Tilfinningaúrvinnsla í hitanum

„Sorgarúrvinnsla,“ segir Lára. „Ég hafði farið áfram á hnefanum en hef náð að losa um tilfinningarnar,“ segir hún. Gufan bæti við mannlífið í Hafnarfirði. „Já, þetta er athvarf sem gott er að geta skotist í og átt góða stund án mikils fyrirvara,“ segir Lára.

Silja segir gusur upplifun fyrir skynfærin. „Já, það er svo gott að opna hjartað og láta líða úr sér.“ Lára tekur undir: „Já, það lifnar yfir manni í gufunni. Hér við Langeyrarmalir hef ég sjóinn og fólkið. Við dýfum tánum í fjörðinn, sækjum orku í þarann og ég hlakka alltaf til.“

Myndatexti: Mæðgurnar Lára Alda Alexandersdóttir og Silja Þórðardóttir lærðu saman að verða gusumeistarar. Þær nota kraftana í Herjólfsgufunni við Langeyrarmalir.

 

Jólablað Hafnarfjarðar 2025 – vefútgáfa:

 

Ábendingagátt