Hátíðin er hefð sem ekkert ungmenni vill missa af

Fréttir

Um miðjan febrúar fór fram hin sívinsæla Grunnskólahátíð Hafnarfjarðar. Hátíðin er orðin að hefð sem grunnskólanemendur bíða spenntir eftir og eru það allar félagsmiðstöðvarnar í Hafnarfirði sem standa að hátíðinni og þannig fyrir dansleik fyrir alla nemendur á unglingastigi í grunnskólum Hafnarfjarðar.

Rúmlega 800 ungmenni komu saman til að skemmta sér á Grunnskólahátíð Hafnarfjarðar 2023

Um miðjan febrúar fór fram hin sívinsæla Grunnskólahátíð Hafnarfjarðar. Hátíðin er orðin að hefð sem grunnskólanemendur bíða spenntir eftir og eru það allar félagsmiðstöðvarnar í Hafnarfirði sem standa að hátíðinni og þannig fyrir dansleik fyrir alla nemendur á unglingastigi í grunnskólum Hafnarfjarðar. Hátíðin hefur síðastliðin ár verið haldin í Íþróttahúsinu Strandgötu.

Ungmennin völdu Pál Óskar til að loka hátíðinni

Undirbúningur Grunnskólahátíðar Hafnarfjarðar tekur tíma og hefur valinn hópur deildar- og aðstoðardeildarstjóra félagsmiðstöðvanna í Hafnarfirði ásamt fulltrúum ungmenna staðið í ströngu við skemmtilegan undirbúning hátíðar. Ungmennin sjá meðal annars um val á tónlistarfólki, auglýsingu á viðburði auk skipulagningar og framkvæmdar. Við þessa vinnu nýtur hópurinn í heild einnig stuðnings annarra deildar- og aðstoðardeildarstjóra félagsmiðstöðvanna auk starfsfólks þeirra.

Tropical þema hátíðar í ár – hátíð stuðs og stjarna

Í ár var þema hátíðarinnar Tropical og kepptu grunnskólarnir í skreytingakeppni. Að þessu sinni var það Áslandsskóli sem stóð uppi sem sigurvegari. Ballið fór vel fram og margar upprennandi stjörnur stigu á stokk! Kynnar kvöldsins voru þau Emilía Ósk Grétarsdóttir og Ísak Gunnarsson úr Áslandsskóla, Greipur Ásmundarson úr Lækjarskóla, Hildur Hólmfríður Þrastardóttir úr NÚ og Brynja Eik Steinsdóttir úr Skarðshlíðarskóla og héldu þau frábærlega utan um það mikilvæga verkefni að kynna stjörnur kvöldsins og peppa upp
stemninguna í sal. Það var Davíð Pétursson úr Setbergsskóla eða DJ David sem byrjaði að hita upp, næst á svið var hópurinn Dí Jay Guðríður en í honum eru Halldór Ingi Auðunsson úr Hraunvallaskóla, Bjarki Már Ingvarsson úr Hvaleyrarskóla, Sigurður Bjarmi Árnason og Dagur Máni Daðason úr Öldutúnsskóla. Því næst steig Herra Hnetusmjör á svið. Ragnar Kári Kristjánsson eða DJ Raggi passaði svo að halda uppi stemningunni þangað til að ofurstjarna kvöldsins steig loks á svið, enginn annar en Páll Óskar Hjálmtýsson. Páll Óskar
hélt uppi stuðinu alveg fram á síðustu mínútu hátíðar eða til kl. 22.

Framtíðin er björt með þessi flottu ungmenni við stýrið!

Ábendingagátt