Hátt í 65.000 gestir á Hjarta Hafnarfjarðar

Fréttir

Aldrei hafa fleiri mætt á Hjarta Hafnarfjarðar bæjarhátíðina við Bæjarbíó. Hátíðin stóð sex helgar. Nú hefur svæðið aftur fengið sitt vanalega útlit.

Hjarta Hafnarfjarðar aldrei stærra

Nærri 65.000 gestir lögðu leið sína á hátíðina Hjarta Hafnarfjarðar hér í hjartanu, miðbæ Hafnarfjarðar helgarnar sex sem hún fór fram. Nú sést ekki tangur né tetur af hátíðinni og allt komið í sinn vanagang. Tjöldin hafa verið felld og bílastæðin aftur tekin í notkun. Já, það með sanni má segja að hátíðin hafi slegið í gegn.

„Það gekk rosalega vel. Virkilega margt fólk, besti júlímánuður frá upphafi mælinga. Engin alvarleg óhöpp og gestir til fyrirmyndar,“ segir Páll Eyjólfsson, rekstrarstjóri Bæjarbíós.

Veðuguðirnir léku við gesti

„Það má þakka tveimur hlutum sérstaklega fyrir hve vel gekk: Frábæru starfsfólki sem stóð að undirbúningnum og umgjörðinni allri. Að auki veðurguðunum. Þegar þetta tvennt fer saman gengur allt upp,“ segir Palli.

Fjölmargir flytjendur komu fram. Fjölskyldur, vinahópar og gestir úr nær og fjær nutu samverunnar og tóku þessa tónlistarmenningu inn. Öll framkvæmd hátíðarinnar gekk vel. Veðrið lék við gesti.

Ungir sem aldnir skemmtu sér

„Gestirnir voru á öllum aldri. Við erum með breiðan markhóp. Við getum ekki markhópagreint þessa hátíð að nokkru leiti. Það eru bara allir,“ segir Palli. „Við sáum líka að annar hópur var á hamingjustundinni og svo þegar tónleikarnir byrjuðu. Við bjuggum líka til dagskrá sem höfðar til yngra fólksins, það stöðvaði ekki eldri í að koma.“

Palli segir helsta tilganginn að sýna sig og sjá aðra – hitta fólk. „Svo eru listamennirnir rúsínan í pylsuendanum.“

Já, hátíðin var yndisleg – lífið er yndislegt.

Ábendingagátt