„Haustið er tíminn til að tengjast“ – Ungt fólk í félagsstarfi

Fréttir

„Þátttaka í skipulögðu tóm­stunda- og íþróttastarfi er verndandi þáttur í lífi barna og ungmenna,“ segir fagstjóri forvarna- og frístundastarfs hjá Hafnarfjarðarbæ. 16-24 ára geta á Ungmennaþingi haft áhrif á þetta starf.

Félagsmiðstöðvarnar til að vera saman

„Haustið er tíminn til að tengjast. Þetta er tíminn þar sem við hittum félagana eftir langt sumarfrí og tökum upp þráðinn þar sem frá var horfið. Það er einmitt svo mikilvægt að vera í sambandi við hvert annað og halda góðum tengslum. Já, plögga sig aftur í samband,“ segir Stella B. Kristinsdóttir
fagstjóri forvarna- og frístundastarfs hjá Hafnarfjarðarbæ, í aðsendri grein í Hafnfirskri æsku, blaði Fjarðarfrétta sem kom út fyrr í mánuðinum.

„Þátttaka í skipulögðu tóm­stunda- og íþróttastarfi er verndandi þáttur í lífi barna og ungmenna. Það á við um íþróttastarf, félagsstarf í æskulýðsfélögum, tónlistarnám eða þátttöku í starfi félagsmiðstöðva. Mig langar að minna á valkostinn að njóta frítímans í skipulögðu félags­miðstöðvastarfi,“ segir hún en nú á morgun, þriðjudaginn 24. september kl. 17 verður haldið Ungmennaþing um þjónustu tveggja nýrra ungmennahúsa hér í Hafnarfirði.

Félagsstarfið og unga fólkið

„Við erum svo heppinn að við höfum félagsmiðstöðvar í okkar nærsamfélagi! Hlutverk þeirra er að bjóða börnum og unglingum á aldrinum 10-16 ára upp á frístundastarf sem hefur forvarnar-, uppeldis- og menntunargildi og tekur mið af aldri þeirra og þroska. Í starfi félagsmiðstöðva leggur starfsfólk ríka áherslu á að skapa einstaka menningu og öruggt umhverfi með börnum og ungmennum. Þátttaka í skipulögðu starfi félagsmiðstöðva og ungmennahúsa með fagfólki hefur mikilvægt forvarnargildi og eykur líkur á því að ungt fólk kjósi heilbrigðan lífsstíl og forðist áhættuhegðun,“ segir hún í greininni.

„Þar er boðið upp á afþreyingaraðstöðu og samveru jafnaldra í bland við viðburði, stóra sem smáa. Áhersla er lögð á að virkja börn og ungmenni til þátttöku í starfinu og er dagskrá fjölbreytt og unnin með ungmennum. Félagsmiðstöðvar sinna einnig vettvangsstarfi bæði í sínu nærumhverfi og svo sameiginlega í starfi Götuvitans sem er flakkandi félagsmiðstöð,“ segir hún og bendir á að Götuvitinn sinni vettvangsstarfi eftir lögbundinn útivistartíma í samstarfi við foreldrafélög en er einnig kominn í samstarf við önnur sveitarfélög á stórhöfuðborgarsvæðinu.

Hvetjum unga fólkið í félagsmiðstöðvarnar

„Öll eru velkomin í félagsmiðstöðina og hvet ég aðstandendur til að kanna dagskrána í félagsmiðstöðinni með barninu, kíkja með þeim þangað eða hvetja þau til nýta sér hana til að hittast og hangsa. Félagsmiðstöðvar eru opnar í öllum skólum mánudaga, miðvikudaga og föstu­daga seinni part dags og fram á kvöld, einnig er HHH hinsegin félags­miðstöðin opin á fimmtudögum og Músík og mótor alla virka daga 17-22.“

Frekar upplýsingar um félags­miðstöðvar í Hafnarfirði er að finna á vef Hafnarfjarðarbæjar. Við hvetjum alla forráðamenn og foreldra að benda börnum sínum á ungmennaþingið í Flensborgarskóla kl. 17 á morgun, þriðjudaginn 24. september.

 

Ábendingagátt