Haustsýning Hafnarborgar 2023 – kallað eftir tillögum

Fréttir

Líkt og undanfarin ár gefst sýningarstjórum tækifæri til að senda inn tillögur að haustsýningu næsta árs í Hafnarborg.  Haustsýning Hafnarborgar í ár, flæðir að – flæðir frá, í sýningarstjórn Sigrúnar Ölbu Sigurðardóttur, verður opnuð  opnuð 10. september næstkomandi.

Haustsýning Hafnarborgar 2023 – kallað eftir tillögum 

Líkt og undanfarin ár gefst sýningarstjórum tækifæri til að senda inn tillögur að haustsýningu næsta árs í Hafnarborg. Haustsýningaröðin hóf göngu sína árið 2011 en hingað til hafa tólf sýningar verið valdar úr miklum fjölda innsendra tillagna eftir sýningarstjóra með ólíkan bakgrunn og reynslu. Þá var haustsýning Hafnarborgar í ár, flæðir að – flæðir frá, í sýningarstjórn Sigrúnar Ölbu Sigurðardóttur, valin með sama hætti úr þeim tillögum sem bárust á síðasta ári en sýningin verður opnuð 10. september næstkomandi.

Markmiðið með því að óska eftir innsendum tillögum er að fá tækifæri til að velja til samstarfs sýningarstjóra eða sýningarstjórateymi, sem leggur fram áhugaverða sýningartillögu, auk þess að vera vettvangur fyrir upprennandi sýningarstjóra til að koma hugmyndum sínum á framfæri. Eru sýningarstjórar með stuttan feril að baki því sérstaklega hvattir til að sækja um. Það hefur enda sýnt sig að fyllsta ástæða er til að halda úti slíku verkefni en út frá því hafa orðið til fjölbreyttar sýningar, sem vakið hafa athygli og fengið góða aðsókn.

Óskað er eftir hugmyndum að samsýningum þar sem viðfangsefni, vinnuaðferð og/eða aðrar hugmyndir tengja verk listamanna en einnig koma til greina sýningar sem fela í sér greiningu eða sérstaka sýn á verk ákveðins listamanns. Jafnt koma til greina sýningar á verkum samtímalistamanna og sýningar sem fela í sér sögulega greiningu. Þá er það listráð Hafnarborgar sem fer yfir umsóknir og velur vinningstillöguna í samráði við forstöðumann.

Frestur til að skila inn tillögum er til og með sunnudeginum 18. september nk.

Allar tillögur skulu sendar á netfangið hafnarborg@hafnarfjordur.is, merktar „Haustsýning 2023“. Í kjölfarið verður send staðfesting á því að tillagan hafi verið móttekin en bent er á að hafa samband í síma 585 5790, berist sú staðfesting ekki. Þá verða allir umsækjendur upplýstir um það hvort tillaga þeirra hafi hlotið brautargengi eður ei. Allar niðurstöður verða sendar með tölvupósti.

Nánari upplýsingar um framkvæmd og ferli má finna á vef Hafnarborgar 

Nánari upplýsingar veitir skrifstofa Hafnarborgar í síma 585-5790

Ábendingagátt