Hefð að ganga á Helgafell á fyrsta degi nýs árs

Fréttir

Tugir þúsunda ganga á eða umhverfis Helgafell árlega og er fjallið verulega vinsælt hjá göngu-, hlaupa- og einnig fjallahjólafólki. Rúnar Pálsson fer nær daglega á Helgafell og hefur í næstum aldarfjórðung séð um gestabókina á toppnum þar. Það er orðin hefð hjá þeim hjónum, börnum þeirra og barnabörnum að ganga saman á Helgafellið á nýársdag með nýja gestabók og konfektkassa.

Tugir þúsunda ganga á eða umhverfis Helgafell árlega og er fjallið verulega vinsælt hjá göngu-, hlaupa- og einnig fjallahjólafólki. Rúnar Pálsson fer nær daglega á Helgafell og hefur í næstum aldarfjórðung séð um gestabókina á toppnum þar. Það er orðin hefð hjá þeim hjónum, börnum þeirra og barnabörnum að ganga saman á Helgafellið á nýársdag með nýja gestabók og konfektkassa.

5O5A3478Hafnfirðingurinn Rúnar Pálsson fer nær daglega á Helgafellið.  

Hafnfirðingur til fyrirmyndar

Helgafellið er fjölskyldufjallið og eru börnin ekki ýkja gömul þegar fyrsta ferðin er farin á fjallið. Mörg hver enn ekki farin að ganga og njóta göngunnar í poka á baki foreldranna. Saman fer hópurinn í a.m.k. eina ferð á fellið á ári, á sjálfan nýársdag. Áætlað er að Rúnar eigi um 200 bækur í bílskúrnum hjá sér með nöfnum toppfara og alls kyns skemmtilegum kveðjum frá gestum og gangandi víðs vegar að úr heiminum. Hugmyndin að gestabók á svæðinu og framkvæmdin í heild var upphaflega algjörlega að frumkvæði Rúnars og árið 2019 hlaut hann nafnbótina Hafnfirðingur til fyrirmyndar fyrir þetta einstaka einstaklingsframtak sem nær til alls samfélagsins og fleiri fá að njóta góðs af. Vinsældir og aðdráttarafl Helgafells eru þó svo mikil að allt árið um kring nýtir fólk þennan 338 metra móbergsstapa sem „líkamsræktarstöð“ og klæðir sig bara eftir veðri og færð.

Gleðilegt nýja árið kæru íbúar! Megi árið færa ykkur gleði, góða heilsu og spennandi verkefni.

Jólablað Hafnarfjarðar 2021

Þessi umfjöllun er hluti af efni í jólablaði Hafnarfjarðar 2021. Jólablaðið hefur þann eina og sanna tilgang að kynna jólabæinn Hafnarfjörð fyrir öllum áhugasömum, fyrir gestum og gangandi og varpa ljósi á þann hlýleika og fjölbreytileika sem býr með fólkinu og fyrirtækjunum í jólabænum Hafnarfirði. Í jólablaðinu 2021 er meðal annars að finna umfjöllun um öðruvísi skemmtun, hefðir í hreyfingu, einstaka samheldni íbúa, hús tækifæranna í Hellisgerði, fjölskyldurekin fyrirtæki, norðurljós, töfrum prýdd kaffihús, girnilegar uppskriftir, mikilvægi þess að njóta og slaka, Jólahjartað og hjartasvellið sem opnar í desember, samstarfsverkefni samfélaginu til heilla og síðasta en ekki síst Jólaþorpið sem opnaði fyrstu helgina í aðventu.

Jólablað Hafnarfjarðar 2021

Ábendingagátt