Heil öld í Hellisgerði

Fréttir

Það skiptust á skin og skúrir í Hellisgerði um helgina. Hafnarfjarðarbær fagnaði aldarafmæli Hellisgerðis á laugardag og á sunnudag blés Litla Álfabúðin til árlegrar Álfahátíðar í samstarfi við sveitarfélagið.

Hafnfirðingar létu hellidembu ekki stöðva sig í hátíðarhöldunum

Það skiptust á skin og skúrir í Hellisgerði um helgina. Hafnarfjarðarbær fagnaði aldarafmæli Hellisgerðis á laugardag og á sunnudag blés Litla Álfabúðin til árlegrar Álfahátíðar í samstarfi við sveitarfélagið. Hraustir Hafnfirðingar létu úrhellisrigningu á aldarafmæli ekki stöðva sig og mættu prúðbúin til veislu með regnhlíf, hlýddu á ávarp bæjarstjóra og ljúfa tóna og tóku þátt í sögugöngum og spjalli um lífið í Hellisgerði síðustu áratugina. Meðal veislugesta voru þrjú systkini sem bjuggu í Hellisgerði. Tveir bræður sem fæddust í húsinu sem í dag hýsir Litlu Álfabúðina og systir sem flutti þangað tveggja ára gömul.

 

 

 

 

 

 

Heimsækið garðinn í blíðu og blóma

Framkvæmdir við endurbætur í Hellisgerði hófust á árinu 2022 í tilefni af aldarafmælinu og í sumar hefur verið unnið á hátíðarsvæðinu við sviðið og Litlu Álfabúðina. Grasflötin hefur verið löguð auk þess sem að nýir stígar og setpallar eru komnir upp og unnið að fullnaðarfrágangi á yfirborði við hjartað. Garðurinn er í miklum blóma og búið að koma fyrir blómakerjum og fallegum skreytingum á vel völdum stöðum. Söguskilti um Hellisgerði hefur verið komið upp við hlið hjartans við inngang í garðinn frá Reykjavíkurvegi. Framkvæmdir í garðinum halda áfram fram á haustið meðan vel viðrar. Hafnfirðingar og vinir Hafnarfjarðar eru hvattir til heimsækja garðinn og njóta hans á sínu blómlegasta skeiði yfir árið; svona síðsumars. Annars er Hellisgerði þeim gæðum gæddur að vera heillandi allt árið um kring.

Fleiri myndir á Facebooksíðu bæjarins

Ábendingagátt