Heildarstefna fyrir Hafnarfjörð samþykkt samróma

Fréttir

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti samróma á fundi sínum rétt fyrir páska framlagða framtíðarsýn, meginmarkmið og stefnumarkandi áherslur fyrir Hafnarfjörð sem ganga þvert á alla málaflokka sveitarfélagsins. Heildarstefna Hafnarfjarðar til ársins 2035 styður við mótun áherslna til skemmri tíma og munu ráð og nefndir endurskoða áherslur árlega og marka aðgerðir sem styðja við framgang verkefna. 

Skýr framtíðarsýn sem unnin var í víðtæku samráði

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti samróma á fundi sínum rétt fyrir páska framlagða framtíðarsýn, meginmarkmið og stefnumarkandi áherslur fyrir Hafnarfjörð sem ganga þvert á alla málaflokka sveitarfélagsins. Heildarstefna Hafnarfjarðar til ársins 2035 styður við mótun áherslna til skemmri tíma og munu ráð og nefndir endurskoða áherslur árlega og marka aðgerðir sem styðja við framgang verkefna. Með stefnumótuninni eru stigin stór skref við innleiðingu Hafnarfjarðar á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og á barnasáttmálanum.

„Íbúar, fyrirtæki, starfsfólk bæjarins, bæjarfulltrúar og aðrir hagsmunaaðilar hafa í nýrri heildarstefnu mótað sameiginlega framtíðarsýn fyrir Hafnarfjörð til ársins 2035. Þessi sýn sem endurspeglast í nýrri heildarstefnu Hafnarfjarðar mun verða leiðarljós og viti allra ráða og nefnda sveitarfélagsins við mörkun verkefna og framkvæmda. Hjartað í stefnunni er fólkið og að fólkið sé í fyrsta sæti í Hafnarfirði hvar sem það er á lífsleiðinni,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar. Ný heildarstefna tengir betur saman allar stefnur sveitarfélagsins og býr til skýra framtíðarsýn þvert á alla þjónustu og málaflokka.

VerkferliHeildarstefna

Þátttaka og grunnhugsun að baki heildarstefnu Hafnarfjarðar – ferli og fyrirkomulag. 

Markmiðið að tengja stefnu, aðgerðir og markmið við úthlutun fjármagns

Ný heildarstefna er til þess fallin að einfalda og fækka stefnum í einstökum málaflokkum og setja árlegar áherslur og aðgerðir í forgang. Samhliða felur ný stefna í sér heildstæða nálgun gagnvart innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og barnasáttmála. Ein skýr framtíðarsýn fyrir sveitarfélagið er studd af níu meginmarkmiðum í málefnum sem oft ganga þvert á þjónustu sveitarfélagsins. Meginmarkmiðin eru: vellíðan íbúa, hreyfing og heilsa, blómlegt atvinnulíf, lifandi byggð, vistvænt samfélag, öflugt menningarlíf, menntun fyrir allar, markviss þátttaka og skilvirk þjónusta. Hvert meginmarkmið markar grunn fyrir val á áherslum í sértækum málum til nokkurra ára í senn og stuðlar þannig að langtímaumbótum og jákvæðum breytingum.

MeginmarkmidHeildarstefna2022Heildarstefnan er byggð upp í kringum níu meginmarkmið sem tengd eru heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.  

Metnaðarfull vinna stýrihóps, sem skipaður var fulltrúum allra flokka, og víðtækt samráð fyrir íbúa, fyrirtæki, starfsfólk og aðra hagsmunaaðila, er að skila sér í mótun 43 áherslna fyrir Hafnarfjörð og nú tekur við frekari vinna við markmiðasetningu og mótun aðgerðaáætlana til skemmri tíma. Aðgerðaáætlanir eru unnar sem undanfari fjárhagsáætlanagerða með það að markmiði að tengja stefnu, aðgerðir og markmið í auknu mæli við úthlutun fjármagns.

Heildarstefna Hafnarfjarðar til ársins 2035 

Ábendingagátt