Heilsa Hafnfirðinga efld í heilsubænum

Fréttir

Heilsubærinn Hafnarfjörður kom að mörgum verkefnum og viðburðum á árinu 2024 til að efla heilsu og vellíðan í sveitarfélaginu. Ársskýrsla Heilsubæjarins er komin út.

Heilsan fyrst í Hafnarfirði!

Íþróttaálfurinn heimsótti alla leikskóla bæjarins og Hamingjudagar Hafnarfjarðarbæjar voru lengdir úr viku í mánuð á síðasta ár og stóðu allan septembermánuð. Heimsókn Íþróttaálfsins og Hamingjudagarnir voru meðal þeirra fjölda verkefna og viðburða sem Heilsubærinn Hafnarfjörður tók þátt í á árinu 2024. Nýir samstarfsaðilar tóku þátt í dögunum. Sjöunda ársskýrsla Heilsubæjarins er komin út. Margir viðburðir voru haldnir á árinu. Þar á meðal:

  • Ratleikur yfir sumartímann í upplandinu
  • Tvenn fræðslukvöld í Bæjarbíói
  • Flotjóga í Suðurbæjarlaug
  • Hollustu- og hreyfiátak í félagsmiðstöðvum
  • Heilsu- og menningargöngur yfir sumartímann
  • Flot á Hvaleyrarvatni

Stöðugt er verið að skoða og meta verkefni sem tengjast markmiðum heilsubæjarins og hvernig hægt er að þróa og efla heilsueflandi samfélag í Hafnarfirði. Unnið er að mörgu til að efla hreyfingu. Þar á meðal:

  • Þátttaka í sameiginlegu göngukorti höfuðborgarsvæðisins
  • Snjógerðavél fjármögnuð í samstarfi við Skautafélagið
  • Göngustígar, skipulag og framtíðarsýn

Einnig var hugað að öryggi og má þar nefna:

  • Yngstu árgangar fengu endurskinsmerki
  • Frísk í FH. Heilsuefling fyrir eldri bæjarbúa
  • Vímuvarnafræðslan Veldu fyrir alla bekkinga
  • Smokkar fyrir alla í 10. bekk

Markmiðið skýrt

Meginmarkmið heilsubæjarins Hafnarfjörð eru að auka vellíðan, hreyfingu, mataræði og útiveru í upplandinu. Þessi markmið eru enn drifkraftur verkefni stýrihópsins og endurspegla verkefnavalið. Til að efla sjálfsmynd og vellíðan þarf að styrkja stoðir og hvetja alla aðila samfélagsins, unga sem aldna, til þátttöku í heilsueflingu almennt.

Margt er á prjónunum til að efla heilsuna enn frekar í Hafnarfirði. Má þar nefna meðal fyrirhugaðra verkefna í ár, 2025:

  • Að fjölga heilsueflandi leikskólum í Hafnarfirði en flestir grunnskólar eru það nú þegar en fáir leikskólar
  • Setja upp einn útivatnsbrunn á ári

Þá hefur fjöldi verkefna fest sig í sessi eins og fræðslukvöldin í Bæjarbíói, lýðheilsugöngur, hlaup, vímuefnafræðsla og hreyfing í félagsmiðstöðvum.

Unnið með Landlækni

Heilsueflandi samfélögum í landinu fjölgar jafnt og þétt og eru vel yfir 90% íbúa landsins búsettir í heilsueflandi sveitarfélögum. Verkefnið er í samvinnu við Landlæknisembættið sem kynnti á síðasta ári mælikvarða, lýðheilsuvísa, sem eru til þess fallnir að veita yfirsýn yfir lýðheilsu eftir umdæmum. Þessa vísa má finna um Hafnarfjörð: Lýðheilsuvísar 2024.

Gott heilseflingarár að baki

Í samantekt teymisins á bakvið heilsubæinn má sjá að farsældarumræða hafi verið talsverð í Hafnarfirði 2024 og henni tengt hafi oft fjallað um jaðarsetta hópa.

„Aðgengi og þátttaka barna með fötlun og barna innflytjenda að íþrótta- og tómstundastarfi kom þar við sögu. Vísbendingar benda til þess að þessir hópar taka mun minna þátt í íþrótta- og tómstundastarfinu og þetta þátttöku- og virknileysi viðheldur því að hóparnir verði jaðarsettir. Við vinnum að því að breyta þessu og virkja þessa hópa,“ segir þar.

„Árið 2024 var mjög gott heilsueflingarár í Hafnarfirði. Stýrihópurinn eða heilsubærinn Hafnarfjörður tók þátt í fjölmörgum verkefnum og nokkur þeirra voru ný af nálinni. Auk þess bættust við nýir samstarfsaðilar sem vinna að sama marki og markmið heilsubæjarins. Gott ár að baki er forveri þess að geta haldið áfram með það sem gekk vel og þróa áfram,“ segir þar og lokaorðin:

„Heilsubærinn heldur áfram og gömlu góðu markmiðin draga okkur áfram að því að bæta Hafnarfjörð enn meira árið 2025.“

Já, svona á þetta að vera!

Ábendingagátt