Heilsueflandi samningur við Hress fyrir 65+

Fréttir

Hafnarfjarðarbær og Hress heilsurækt hafa undirritað og handsalað samning um heilsueflingu fyrir 65 ára og eldri íbúa Hafnarfjarðar. Heilsueflingin miðast að því að bæta styrk, þol, líkamsbeitingu og liðleika með mælanlegum hætti.

Markmiðið að gera þátttakendur sjálfbæra með eigin heilsueflingu

Hafnarfjarðarbær og Hress heilsurækt hafa undirritað og handsalað samning um heilsueflingu fyrir 65 ára og eldri íbúa Hafnarfjarðar. Heilsueflingin miðast að því að bæta styrk, þol, líkamsbeitingu og liðleika með mælanlegum hætti. Samningurinn var undirritaður í Hress í morgunsárið af þeim Lindu Hilmarsdóttur og Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra í faðmi hressra kvenna sem voru á leið í tíma til Lindu. Gildistími samnings er frá 1. janúar 2025 til  til 31. desember 2026.

Guðlaug Ósk Gísladóttir sviðsstjóri fjölskyldu- og barnamálasviðs, Linda Hilmarsdóttir annar eigenda Hress og Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri.

„Hress er rótgróin hafnfirsk stöð sem á sér mjög stóran hóp traustra viðskiptavina. Fólk sækir í hlýleikann og þá fjölbreyttu tíma sem í boði eru fyrir alla aldurshópa allt frá morgni til kvölds,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri. Aukin áhersla þeirra á vellíðan og heilsueflingu eldri iðkenda er lofsverð og eitthvað sem sveitarfélagið styður með stolti enda í takti við markmið heilsubæjarins Hafnarfjarðar að efla lýðheilsu fólks á öllum aldri.“

Árangur metinn með heilsufarsmælingum

Samningurinn er til tveggja ára og felur verkefni Hress meðal annars í sér aðgang að Hress heilsurækt með ráðgjöf frá þjálfara, einstaklingsmiðaða þjálfun og handleiðslu með aðgang að styrktar- og þolfimiþjálfurum, styrktarþjálfun tvisvar í viku og þolþjálfun einu sinni í viku í tækjasal eða hóptíma, heilsutengda fræðslu, heilsufarsmælingar á sex mánaða fresti og ráðgjöf frá sjúkraþjálfurum auk aðgangs að fjölbreyttum hópatímum. Þátttakendur eru íbúar, 65 ára og eldri með lögheimili í Hafnarfirði.  Markmiðið er að á þessum tveimur árum þá verði þátttakendur sjálfbærir með eigin heilsueflingu og geti þannig í kjölfarið sinnt henni áfram á eigin forsendum. Þá verður sá möguleiki fyrir hendi að þiggja framhaldsþjálfun hjá Hress án samvinnu við Hafnarfjarðarbæ. Árangur þátttakenda verður metinn með heilsufarsmælingum, í upphafi þátttöku og svo á sex mánaða fresti.

Fagmennska, heilsuefling og félagslegur stuðningur

Hress heilsurækt hefur starfað í Hafnarfirði frá árinu 1987 og hefur lengst allra fyrirtækja í bænum komið að heilsueflingu almennings á öllum aldursstigum. Fagmennska, heilsuefling og félagslegur stuðningur er það sem Hress stendur fyrir ásamt því að létta á hversdagsleikanum með ýmsum viðburðum. Hressleikarnir eru eitt gott dæmi þar sem á þriðja hundrað iðkenda hreyfa sig til styrktar góðu málefni ár hvert. Sjúkraþjálfun Hress hóf starfsemi sína árið 2023 og mun fagþekking þeirra koma að verkefninu.

Vefur Hress

Ábendingagátt