Heilsuleikar marka upphaf heilsueflingar í Hafnarfirði

Fréttir

Um 250 Hafnfirðingar á öllum aldri sameinuðust í leik og gleði á heilsuleikum sem efnt var til í dag í frjálsíþróttahúsi FH í Kaplakrika. Tilefnið var að ýta úr vör með formlegum og óhefðbundnum hætti heilsueflandi aðgerðum og eflingu hjá Hafnarfjarðarbæ.

Um 250 Hafnfirðingar á
öllum aldri sameinuðust í leik og gleði á heilsuleikum sem efnt var til í dag í
frjálsíþróttahúsi FH í Kaplakrika. Tilefnið var að ýta úr vör með formlegum og óhefðbundnum
hætti heilsueflandi aðgerðum og eflingu hjá bænum en nýlega var samþykkt
heilsustefna fyrir Hafnarfjörð og munu næstu dagar, vikur og mánuðir fara í
framkvæmd aðgerða sem allar miða að því að efla vellíðan íbúa, efla opin svæði
og jafna aðgengi og hvetja íbúa til að neyta hollrar fæðu heilt yfir.

Í glæsilegu frjálsíþróttahús FH í Kaplakrika komu saman í
morgun um 250 einstaklingar á öllum aldri til að taka þátt í maraþongöngu og
heilsuleikum og marka þannig upphaf að innleiðingu að heilsueflandi aðgerðum í
Heilsubænum Hafnarfirði. Hópurinn gekk og/eða hljóp í heild ríflega heilt
maraþon eða um 56 kílómetra. Á heilsuleikana mættu hressir eldri borgarar, um 100
börn frá heilsueflandi leikskólum Hafnarfjarðar, 50 krakkar frá Hvaleyrarskóla
sem er heilsueflandi grunnskóli og í kringum 70 ungmenni frá Flensborgarskóla
sem er heilsueflandi framhaldsskóli ásamt fleiri góðum gestum. Nemendur í
Flensborgarskóla sáu um skipulagningu heilsuleikanna, yngstu börnin tóku þátt í
leikunum og grunnskólanemendurnir um hollar og góðar veitingar að æfingum
loknum. Hraustir eldri borgarar gengu hring eftir hring; fyrir leikana, á meðan
leikar stóðu og eftir leikana. 29 einstaklingar sem í heild gengu 223 hringi
eða rúmlega 50 kílómetra samanlagt nú í morgun. Yfir vetrarmánuðina gengur stór
hópur eldri borgara daglega í íþróttahúsinu og heldur hópurinn skráningu yfir
gönguna. Í febrúar gengu 778 manns samtals 7669 hringi eða rúmlega 1.733 km.

Metnaðarfull
heilsustefna fyrir heilsubæinn Hafnarfjörð

Hafnarfjarðarbær gekk til samninga við Embætti landlæknis í
mars 2015 um þátttöku í verkefninu Heilsueflandi samfélag og hefur sveitarfélagið
í samstarfi við íbúa, starfsmenn og aðra hagsmunaaðila mótað heilsustefnu
Hafnarfjarðarbæjar og lagt fram aðgerðaáætlun sem talar beint saman við stefnuna.
Í heilsustefnu Hafnarfjarðar er eitt aðalmarkmiðið að hlúa að almennri vellíðan
íbúa, andlegri og líkamlegri, á öllum aldri og styrkja og efla sjálfsmynd og
góða líðan. M.a. er lagt til aukið samstarf við félagasamtök, fagfólk,
áhugafólk og heilsugæslu vegna heilsueflingar og vellíðunar og að
upplýsingagjöf verði aukin varðandi þjónustu sem er í boði á því sviði. Að
byggður verði upp samstarfsvettvangur viðkomandi aðila þar um, með þátttöku
ungmennaráðs, öldungaráðs, ráðgjafaráðs, nýbúaráðs og hverfisráðs þar sem meðal
annars verði unnið að verndandi þáttum gegn kvíða og vanlíðan. Lagt er til að
sálfræðiþjónusta verði efld innan leik- og grunnskóla bæjarins. Einnig er lögð áhersla
á að stuðlað verði að heilsusamlegu fæðuúrvali í stofnunum og mannvirkjum innan
bæjarins, unnið að hvatningu og fræðslu um holla næringu, könnuð hljóðvist og
tími til matar í skólum og áhersla lögð á að minnka sóun. Til stendur einnig að
efla og vekja athygli á göngustígum og opnum svæðum í bænum sem útivistarsvæði
fjölskyldunnar og auka aðgengi að sundlaugum bæjarins. Heilsustefnan styður við
þá sýn Hafnarfjarðarbæjar til framtíðar að auka vellíðan íbúa bæjarins með
fyrirbyggjandi aðgerðum.

Sjá heilsustefnu Hafnarfjarðarbæjar HÉR

Ábendingagátt