Heimanámsaðstoð

Fréttir

Heimanámsaðstoð er nú í boði fyrir nemendur með erlendan bakgrunn í 8.-10 bekk í Hafnarfirði. Verkefnið er ætlað þeim nemendum sem vantar aðstoð við heimanám og hafa áhuga að hittast einu sinni í viku og fá hjálp frá sjálfboðaliðum. 

Heimanámsaðstoð fyrir
nemendur með erlendan bakgrunn

Heimanámsaðstoð er nú
í boði fyrir nemendur með erlendan bakgrunn í 8.-10 bekk í Hafnarfirði.
Verkefnið er ætlað þeim nemendum sem vantar aðstoð við heimanám og hafa áhuga
að hittast einu sinni í viku og fá aðstoð frá sjálfboðaliðum. Heimanámsaðstoðin
er í boði alla miðvikudaga frá kl. 16:30 – 18:00 í Bókasafni Hafnarfjarðar.

Markmið verkefnis er að skapa umgjörð þar sem nemendur með
erlendan bakgrunn fá aðstoð við heimanám sitt. Verkefnið hófst haust um leið og
grunnskólarnir hófu kennslu sína og fór fyrstu viku skólaársins í það að ná
utan um þann hóp nemenda þurfa á aðstoðinni að halda. Nemendurnir hafa nú mætt
á bókasafn Hafnarfjarðar í nokkur skipti og fengið aðstoð hjá sjálfboðaliðum frá
Flensborg og Rauða krossinum við að sinna heimanámi sínu (oft allri heimavinnu
fyrir vikuna).  Flestir sjálfboðaliðarnir
eru framhaldsskóla- og háskólanemar og því ekki langt síðan þau voru sjálf að
læra það sem þau eru að aðstoða nemendur með. Þannig eru sjálfboðaliðarnir
„ferskir“ í því sem þeir leiðbeina með og ná yfir höfuð mjög vel til krakkanna.

Aukin færni á
fjölþættu sviði

Verkefnið er til þess fallið að skila því að þau börn sem
ekki fá aðstoð við nám sitt heima fyrir komi til með að standa betur að vígi
námslega og ekki síður félagslega. Fyrirkomulagið er ekki nýtt af nálinni og
hefur reynsla annars staðar sýnt fram á aukna námshæfni, aukna félagsfærni,
betri íslenskukunnáttu og bætt sjálfstraust þátttakenda og líðan í skóla sem
oft helst í hendur við öryggi í námi. 

Ábendingagátt