Heimsókn frá Fulbright stofnuninni

Fréttir

Nýverið tók starfsfólk á mennta- og lýðheilsusviði Hafnarfjarðarbæjar á móti fjórtán kennurum frá Bandaríkjunum sem voru staðsettir hér á landi á vegum Fulbright Hays stofnunarinnar. Hópurinn kynnti sér menntun og menntaáherslur á Íslandi, þar með í Hafnarfirði.

Tilgangur ferðar að kynnast íslenskum menntaáherslum

Vorið og sumarið er tími uppskeru, árangurs og heimsókna. Nýverið tók starfsfólk á mennta- og lýðheilsusviði Hafnarfjarðarbæjar á móti fjórtán kennurum frá Bandaríkjunum sem voru staðsettir hér á landi á vegum Fulbright Hays stofnunarinnar. Þessi heimsókn er liður í eftirfylgd af fyrri heimsókn hópsins til Íslands árið 2021. Hópurinn hefur ferðast vítt og breytt um landið í þeim tilgangi að kynna sér menntun og menntaáherslur á Íslandi, þar með í Hafnarfirði.

Brúin, farsæld og barnvænt sveitarfélag

Hópurinn hitti fulltrúa mennta- og lýðheilsusvið og fjölskyldu- og skólaþjónustu Hafnarfjarðarbæjar sem kynntu fyrir hópnum verklag Brúarinnar, farsældarvinnu Hafnarfjarðarbæjar og barnvænt sveitarfélag. Í leik- og grunnskólum eru sérstök brúarteymi þar sem unnið er í sameiningu til að auka farsæld barna og fjölskyldna þeirra. Brúin er verklag sem eflir stuðning og þjónustu við börn í leik- og grunnskólum sem glíma við áskoranir. Áherslan er að veita stigskipta þjónustu eins fljótt og hægt er. Á fyrsta stigi eru vægari úrræði virkjuð, á hærri stigum eru markvissari úrræði virkjuð og þverfagleg samvinna sett í gang. Barnvænt sveitarfélag er verkefni sem styður við innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í alla stjórnsýslu og starfsemi sveitarfélagsins. Líflegar samræður sköpuðust í kringum kynningarnar og gestirnir mjög áhugasamir um vinnulag Hafnarfjarðarbæjar varðandi málefni barna í Hafnarfirði.

 

Ábendingagátt