Heitavatnslaust í rúman sólarhring í lok ágúst

Fréttir

Heitavatnslaust verður í öllum Hafnarfirði í rúman sólarhring í lok ágúst, þegar verið er að tengja nýja lögn á Álfaskeiði að Lækjargötu.

Heitavatnslaust verður í öllum Hafnarfirði í rúman sólarhring

Hafnarfjörður hefur vaxið og dafnað á undanförnum árum og eru framtíðaráform bæjarfélagsins metnaðarfull. Slíkum vexti fylgja umfangsmiklar veituframkvæmdir en ein slík hefur staðið yfir síðan í nóvember í fyrra á Álfaskeiði að Lækjargötu, sem flestir bæjarbúar hafa eflaust tekið eftir. Framkvæmdinni miðar vel áfram og nú er farið að síga á seinni hlutann. Stefnt er á að verkinu ljúki á haustmánuðum.

Veitur hafa séð um að senda út tölvupóst á þá íbúa sem eru skráðir fyrir mæli og láta þannig vita að það verður heitavatnslaust í rúman sólarhring í öllum Hafnarfirði í lok ágúst, þegar verið er að tengja nýju lögnina. Það er ekki hægt að segja nákvæma dagsetningu á þessari stundu en þeir munu sjá um að senda íbúum aftur póst þegar nákvæm dagsetning liggur fyrir þannig að hægt sé að gera ráðstafanir ef einhverjar eru. Veitur munu vera í samráði við íbúa og rekstraraðila í bænum til þess að tryggja góða upplýsingagjöf vegna málsins.

Veitur hafa skipulagt lokunina þannig að hún verði á þeim tíma sem minnsta notkun er á heitu vatni. Skiljanlega getur það komið sér illa fyrir mörg að vera án heits vatns í rúman sólahring en því miður verður svo að vera þegar um svona stórt verk er að ræða. Veitur eru að endurnýja stofnlagnir hitaveitu til að auka flutningsgetu og mæta aukinni eftirspurn í bænum vegna fjölgunar íbúðarhúsnæðis, með það að markmiði að tryggja öllum íbúum í Hafnarfirði heitt vatn til næstu áratuga.

Sjá hér Endurnýjun stofnlagna á Álfaskeiði | Hafnarfjörður (hafnarfjordur.is)

Á vefsíðu Veitna er hægt að fylgjast með framkvæmdinni og hún er uppfærð reglulega. 

„Allar ábendingar um hvernig við getum upplýst ykkur enn betur eru vel þegnar og þið getið alltaf haft samband við okkur á veitur@veitur.is.“

Fyrirfram þakkir fyrir sýndan skilning

Ábendingagátt