30 klst heitavatnslokun á höfuðborgarsvæðinu

Fréttir

Lokað verður fyrir heita vatnið á hluta höfuðborgarsvæðisins frá kl. 02:00 þriðjudaginn 18. ágúst til kl. 09:00 miðvikudaginn 19. ágúst n.k. Gera má ráð fyrir algjöru heitavatnsleysi á meðan lokun stendur.

Lokað verður fyrir heita vatnið á hluta höfuðborgarsvæðisins frá kl. 2:00 aðfaranótt þriðjudagsins 18. ágúst til kl. 9:00 miðvikudaginn 19. ágúst n.k. Lokunin, sem mun vara í um 30 klukkustundir, nær til Hafnarfjarðar, hluta Garðabæjar, efri byggða Kópavogs og Norðlingaholts í Reykjavík. Gera má ráð fyrir algjöru heitavatnsleysi á umræddum svæðum á meðan lokun stendur.

Ástæða lokunarinnar er að verið er fjölga heimilum sem fá heitt vatn frá virkjunum á Hellisheiði og Nesjavöllum. Við það þarf að sækja minna af heitu vatni í borholur Veitna í Reykjavík og Mosfellsbæ. Með aukinni notkun á heitu vatni, m.a. vegna fjölgunar íbúa og þéttingu byggðar, hefur álag á jarðhitageyminn sem fæðir borholurnar á lághitasvæðunum aukist og við því verður að bregðast. Með þessari aðgerð er tryggt að þessi mikilvægu lághitasvæði nýtast íbúum höfuðborgarsvæðisins til langrar framtíðar.   
    
Til þess að mögulegt sé að gera umrædda breytingu þarf að stöðva rennsli og tæma Suðuræð sem er ein af megin flutningsleiðum á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu. 

VeiturLokun2Fjær á myndinni má sjá Suðuræðina, eina af meginflutningsleiðunum á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu. Tengja á Árbæjarlögnina (lögnin nær) inn á Suðuræðina.  

Veitur
biðjast velvirðingar á þeim óhjákvæmilegu óþægindum sem þetta mun valda. Hægt
er að nálgast frekari upplýsingar á heimasíðu Veitna: www.veitur.is. Nánari upplýsingar veitir Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Veitna. 

Ábendingagátt