Helstu niðurstöður ungmennaþings Hafnarfjarðar

Barnvænt sveitarfélag Fréttir

Rúmlega 110 fulltrúar barna og ungmenna í 8.-10. bekkjum grunnskóla Hafnarfjarðar komu saman á ungmennaþingi Hafnarfjarðar í lok árs 2022. Niðurstöður ungmennaþingsins verða notaðar til að vinna aðgerðaráætlun sem útlistar með skýrum hætti markmið Hafnarfjarðarbæjar og þær aðgerðir sem þörf er á að ráðast í til að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Markvisst unnið að innleiðingu á Barnasáttmála

Rúmlega 110 fulltrúar barna og ungmenna í 8.-10. bekkjum grunnskóla Hafnarfjarðar komu saman á ungmennaþingi Hafnarfjarðar í lok árs 2022. Hafnarfjarðarbær vinnur markvisst að því að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna inn í alla stjórnsýslu og starfsemi sveitarfélagsins, undir formerkjum verkefnisins barnvæn sveitarfélög og er ungmennaþingið liður í innleiðingunni.

Börn og ungmenni vilja vera hluti af ákvörðun

Á þinginu var kallað eftir umræðu og skoðunum á ýmsum málum sem varða hag barna og ungmenna í sveitarfélaginu. Niðurstöður þingsins gefa til kynna að það sé margt sem Hafnarfjarðarbær sé að gera vel en tækifæri séu til umbóta á hinum ýmsu sviðum. Niðurstöðum ungmennaþingins var skipt niður í fjóra flokka: 1) Skólamál, 2) félagslíf og menning, 3) forvarnir og geðheilbrigði og 4) umhverfismál. Í öllum málaflokkum kom fram að börn og ungmenni vilja vera hluti af ákvörðun og vera spurð álits.

Skólamál – helstu niðurstöður

Þegar kemur að skólamálum kalla börn og ungmenni eftir aukinni viðveru hjúkrunarfræðing á skólatíma, betri og fjölbreyttari skólamat, að stöðupróf sé í sundi eða að sund verði valgrein þegar komið er upp á unglingastig. Þá kalla börn og ungmenni eftir kennslu og námsefni sem kemur til með að gagnast þeim betur í framtíðinni t.d. fjármálalæsi.

Félagslíf og menning – helstu niðurstöður

Í flokknum um félagslíf og menningu kom fram að börn og ungmenni eru virkilega ánægð með fjölbreytt íþrótta- og tómstundaval innan bæjarins en kölluðu eftir betri kynningu á því sem er í boði. Kallað var eftir meira fjármagni inn í félagsmiðstöðvar, unglingamiðaðri miðbæ og unglingamiðaðri dagskrá í Bæjarbíó.

Forvarnir og geðheilbrigði – helstu niðurstöður

Í flokknum um forvarnir og geðheilbrigði kalla börn og ungmenni eftir aukinni fræðslu í skólum. Um er að ræða kyn- og kynjafræðslu, eineltisfræðslu, réttindafræðslu, hinseginfræðslu, fræðslu um rasisma og fordóma, fötlunarfræðslu, umhverfisfræðslu og fræðslu um forvarnir og geðheilbrigði. Þá er kallað eftir því að kyn- og kynjafræðsla sé markvissari og byrji almennt fyrr á skólagöngu barna og að starfsfólk innan skólanna fái almenna fræðslu um ofbeldi og andleg veikindi barna. Einnig var kallað eftir auknu aðgengi og styttri biðtíma til sálfræðings.

Umhverfismál – helstu niðurstöður

Þegar kemur að umhverfsimálum er vert að taka fram að börn og ungmenni eru mjög hrifin af miðbæ Hafnarfjarðar, finnst hann litríkur og fallegur. Fram kom að börn og ungmenni telja mikilvægt að endurskoða leiðarkerfi almenningsvagna þar sem betur sé tekið mið af þörfum barna með tilliti til íþrótta og tómstunda. Einnig telja ungmennin mikilvægt að frítt sé í strætó fyrir börn og ungmenni. Kallað var eftir betri lýsingu víðsvegar um bæinn ásamt fleiri ruslatunnum og flokkunartunnum. Töldu börnin mikilvægt að tryggja að tunnurnar séu tæmdar reglulega og í réttri hæð fyrir börn. Einnig var kallað eftir að leiktæki yrðu betrumbætt, sérstaklega þau sem geta valdið slysahættu.

Niðurstöður skila sér í aðgerðaáætlun

Niðurstöður ungmennaþingsins verða notaðar til að vinna aðgerðaráætlun sem útlistar með skýrum hætti markmið Hafnarfjarðarbæjar og þær aðgerðir sem þörf er á að ráðast í til að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Ábendingagátt