Hestamannafélagið Sörli fær nýja reiðhöll 

Fréttir

Ný reiðhöll hestamannafélagsins Sörla verður vígð í dag kl. 17. Öll velkomin. „Fyrsta flokks aðstaða sem horft verður til,“ segir Atli Már Ingólfsson, formaður félagsins. Valdimar Víðisson bæjarstjóri tekur undir: „Innilega til hamingju með húsið sem verður algjör bylting fyrir hestafólk.“

Sörli fær nýja reiðhöll

„Fyrsta flokks aðstaða sem horft verður til,“ segir Atli Már Ingólfsson, formaður hestamannafélagsins Sörla um nýja reiðhöll félagsins sem verður vígð í dag, miðvikudaginn 4. júní. „Nú verða kaflaskil í sögu félagsins.“ Reiðvöllurinn er 71×35 metrar og tekur höllin 800 áhorfendur í sæti.

  • Stutt formleg dagskrá verður við opnun reiðhallar Sörla og reiðatriði. Stefán Már Gunnlaugsson prestur og Sörlafélagi blessar húsið. Verktakafyrirtækið Eykt byggði húsið og afhendir það Hafnarfjarðarbæ formlega. Bæjarstjóri afhendir svo formanni Sörla húsið.

Fyrsta flokks aðstaða

„Það er okkur kappsmál að tryggja íbúum Hafnarfjarðar góða aðstöðu til afþreyingar og íþrótta. Þessi reiðhöll sýnir þá stefnu í hnotskurn og er góð viðbót við önnur glæsileg íþróttamannvirki bæjarins,“ segir Valdimar Víðisson um nýju reiðhöllina.

„Innilega til hamingju með húsið sem verður algjör bylting fyrir hestafólk. Hestamannafélagið Sörli er rúmlega 80 ára gamalt félag með sterka sögu og hefð hér í Hafnarfirði. Aðstaðan fyrir hestafólk verður ein sú glæsilegasta á landinu,“ segir hann.

Félagsstarfið vaxið hratt

Atli Már segir félagsstarfið hafa sprungið út. Á stuttum tíma hafi félagsmönnum fjölgað úr 600 í ríflega 1000. Um tveir áratugir séu síðan gamla reiðhöllin, sú fyrsta á höfuðborgarsvæðinu, varð of knöpp. Félagið sé afar ánægt með stuðning bæjarins.

„Nú þreföldum við reiðgólfið okkar. Segja má að kennslustofum okkar fjölgi úr einni í fjórar,“ segir hann. „Þá er reiðhöllin hönnuð þannig að hún verður stuðningur fyrir útikeppnissvæðið. Hún myndar bæði skjól og áhorfendabrekku. Hönnunin er frábær. Bæði staðsetningin á henni og hvernig hún snýr er mjög flott,“ lýsir Atli og að höllin komi til með að breyta miklu fyrir keppnishald innanhús á Íslandi.

„Hér er upphituð aðstaða til upphitunar í gömlu höllinni. Alls staðar annars staðar hita knapar upp úti í frosti og snjó. Í báðum höllunum verður sama gólfið innflutt frá Danmörku. Þessi reiðhöll er búin öllum helsta búnaði. Menn munu horfa til þessa mannvirkis í framtíðinni.“

  • Vígsla hússins – í dag 4. júní
  • Húsið verður opið frá 17:00-19:00
  • Öll velkomin
Ábendingagátt