Hinsegin fræðsla heldur áfram í grunnskólum Hafnarfjarðar

Fréttir

Samstarfssamningur við Samtökin 78 hefur verið endurnýjaður fyrir skólaárið 2024-2025. Samstarfið hefur staðið frá árinu 2016. Samstarfið gefur færi á hinsegin vænu umhverfi.

Hafnarfjarðarbær og Samtökin ’78 vinna saman

Samstarfssamningur við Samtökin 78 hefur verið endurnýjaður fyrir skólaárið 2024-2025. Samstarf milli Samtakanna og Hafnarfjarðarbæjar hefur staðið alveg frá árinu 2016 þegar ákveðið samstarf hófst um fræðslu og ráðgjöf. Samstarfið hefur gengið út á að Samtökin leggja til ákveðna fræðslu til starfsfólks og eins árgangs í grunnskólum Hafnarfjarðar á hverju skólaári. Á síðari árum hefur að ósk bæjarins bæst við fræðsla til starfsfólks leikskóla og starfsfólks í tómstundamiðstöðvum sérstaklega.

Hinsegin fræðsla tryggi vænt umhverfi

„Við hjá Samtökunum ´78 erum virkilega ánægð með að Hafnarfjarðarbær endursemji við okkur um áframhaldandi hinsegin fræðslu til starfsfólks grunn- og leikskóla og til barna og ungmenna. Með samstarfinu stuðla bæjaryfirvöld að hinsegin vænu umhverfi og gera sitt til að mannréttindi og jafnrétti sé tryggt hjá stofnunum sveitarfélagsins,“ segir Kári Garðarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna 78, um samstarfið við Hafnarfjarðarbæ.

Fræðslan til starfsfólks grunnskóla hófst með því að allt starfsfólk grunnskólanna fékk sex klukkustunda fræðslu um hinsegin málefni. Árlega hefur umrædd fræðsla verið haldin fyrir nýtt starfsfólk grunnskólanna á hverju hausti. Yfir veturinn hafa nemendur í 8. bekkjum grunnskólanna fengið fræðslu í tvær kennslustundir frá Samtökunum sem er skipulagt af hverjum grunnskóla. Þess utan styrkir bærinn foreldra og ungmenni frá Hafnarfirði til að sækja ráðgjafar hjá Samtökunum 78 sér að kostnaðarlausu ef óskað er eftir.

Sérstök kynjafræði og kynfræðsla

Samhliða fræðslu Samtakanna 78 heldur áfram í grunnskólunum sérstök kynjafræði- og kynfræðsla fyrir nemendur í öllum árgöngum með nýrri miðlægri námskrá í Hafnarfirði á þessu sviði, mest í 8.-10. bekk, sem ætlað er að styðja almennt við mannréttindi allra barna.

Samningurinn fyrir þetta skólaár var undirritaður af framkvæmdastjóra Samtakanna 78, Kára Garðarssyni og Fanneyju Dóróthe Halldórsdóttur sviðsstjóra mennta- og lýðheilsusviðs í haust.

Ábendingagátt