Hinsegin hittingur alla fimmtudaga í Vitanum

Fréttir

HHH – Hinsegin hittingur í Hafnarfirði er nú opinn alla fimmtudaga í félagsmiðstöðinni Vitanum í íþróttahúsinu við Lækjarskóla. Hittingurinn er hugsaður fyrir ungmenni í 5.-10. bekk sem skilgreina sig hinsegin á einhvern hátt, eru í hinsegin pælingum og áhugasöm um hinsegin málefni.

HHH hittingurinn er fyrir ungmenni í 5. – 10. bekk

HHH – Hinsegin hittingur í Hafnarfirði er nú opinn alla fimmtudaga í félagsmiðstöðinni Vitanum í íþróttahúsinu við Lækjarskóla. Fyrirmynd HHH er Hinsegin félagsmiðstöðin í
Reykjavík þar sem hittingar og hópastarf hafa gengið vonum framar. Hittingurinn er hugsaður fyrir ungmenni í 5.-10. bekk sem skilgreina sig hinsegin á einhvern hátt, eru í hinsegin pælingum og áhugasöm um hinsegin málefni. Einnig að mæta sem stuðningur ef þau þekkja til einhvers sem gæti haft gott af því að mæta.

  • 5. – 7. bekkur hittist tvo fimmtudaga í mánuði frá klukkan 17 – 19
  • 8. – 10. bekkur hittist alla fimmtudaga frá klukkan 19:30 – 22

Öruggt og hlýlegt umhverfi fyrir ungmennin okkar

Markmið starfsins er að ungmennin upplifi sig örugg, velkomin og fái tækifæri til að blómstra í sínu. Starfið byggir að stórum hluta á jafningjafræðslu og munu ungmennin fá það verkefni að vekja athygli á málefnum hinsegin ungmenna og fagna fjölbreytileikanum í Hafnarfirði. Fimmtudaginn 23. febrúar verður opið hús og fræðsla fyrir foreldra, forsjáraðila, aðstandendur og öll sem vilja kynna sér starfsemi HHH. Klukkan 17:00 opnar húsið og þá verður hægt að skoða aðstöðuna, taka þátt í léttum leikjum og eiga spjall við starfsfólkið. Samtökin 78 mæta klukkan 18:00 með fræðslu um hinsegin mál og ungmenni sem öll geta notið góðs af.

Hægt er að hafa samband við verkefnastjóra í gegnum Instagram: @hinseginhittingurihfj eða á Facebooksíðu HHH. Á þessum síðum má finna dagskrá, fréttir og fleira varðandi starfið.

Ábendingagátt