Hittu Ásu Marin í Hellisgerði

Fréttir Jólabærinn

Ása Marin les úr bókinni sinni Hittu mig í Hellisgerði í Hellisgerði kl. 14 á morgun, laugardag. Bókin er ekki fyrsta skáldsaga Ásu Marinar heldur sú fimmta og er skemmtileg rómantísk ljúflestrarbók.

Ása Marin les úr sögunni sinni í Hellisgerði

„Mig langaði að skrifa um konu sem væri óvænt ein um jólin og líkaði ekki tilhugsunin um að setjast ein til borðs á aðfangadag,“ segir Ása Marin höfundur rómantísku stefnumótaskáldsögunnar Hittu mig í Hellisgerði. Hún les úr bók sinni í Hellisgerði kl. 14 á morgun, laugardag.

Sagan segir af Snjólaugu sem hefur skapað sínar jólahefðir með dóttur sinni en situr nú ein eftir þegar barnsfaðir hennar býður dótturinni til Tene um jólin. Eftir að hafa legið yfir Netflix og séð hverja einmana sálina á fætur annarri finna ástina í jólamyndum ákveður hún að næla sér í jólakæró.

Ása Marin er hafnfirskur rithöfundur sem nýtir heimabæinn í nýjustu skáldsögu sinni Hittu mig í Hellisgerði. Það er rómantísk saga sem jólabærinn rammar inn. Mynd/Óli Már

 

 

Bók í anda Bridget Jones

Bókin er ekki fyrsta skáldsaga Ásu Marinar heldur sú fimmta. Auk þess hefur hún skrifað eina nóvellu og tvær ljóðabækur. Hún lýsir því hvernig fyrsta uppkastið hafi verið dramatískt, jafnvel þunglyndislegt.

„Ég sá fljótt að það hentaði ekki í miðju skammdeginu og tók meiri Bridget Jones-fíling á söguna,“ segir Ása og brosir.

„Þetta er því skemmtileg ljúflestrarbók. Undirtónninn er einmanaleikinn og hræðslan við hann en það er ekki meginþráðurinn í bókinni,“ segir hún en lætur ekkert uppi um það hvort endirinn sé ánægjulegur eftir stefnumótaævintýri söguhetjunnar. „Það bíður lesandans.“ 

Hafnfirðingur eins og söguhetjan

Ása Marin er, eins að aðalpersóna sögunnar, Hafnfirðingur. Hún hefur búið á Laufvangnum, í Hvömmum, Áslandi og nú aftur í Hvömmunum.

 „Og þar sem sagan gerist á aðventunni er tilvalið að jólabærinn rammi söguna inn,“ segir Ása Marín enda koma Hellisgerði, Jólaþorpið og Hjartasvellið við sögu.

Verður bókin að bíómynd? „Það væri óskandi. Ég sé þessa sögu alveg fyrir mér sem bíómynd eða sem þáttaröð,“ segir Ása Marin.

 

 

 

Ábendingagátt