Hjarta Hafnarfjarðar dregur að sér tugþúsundir gesta

Fréttir

Búist er við á þriðja tug þúsunda gesta á tónlistar- og bæjarhátíðina Hjarta Hafnarfjarðar í Bæjarbíói. Björgvin Halldórsson opnar hátíðina í áttunda skipti.

Hjarta Hafnarfjarðar stækkar og stækkar!

Búist er við á þriðja tug þúsunda gesta á tónlistar- og bæjarhátíðina Hjarta Hafnarfjarðar í Bæjarbíói. Hátíðin er nú haldin í áttunda skipti. Hún stækkar með hverju ári og verða um fjörutíu tónlistarviðburðir í boði. Hátíðin litar bæinn og bæjarbraginn — fjölgar fólki í miðbænum, nú þegar sumarið stendur sem hæst.

Hafnfirski söngvarinn, Björgvin Halldórsson, opnar þessa viðamiklu tónlistar- og bæjarhátíð í ár, eins og öll árin á undan. Uppselt er á tónleika hans. „Björgvin er sonur Hafnarfjarðar. Hann er stærsti tónlistarmaður okkar fyrr og síðar,“ fullyrðir rekstrarhaldari Bæjarbíós, Páll Eyjólfsson.

Spennandi opnunarhelgi framundan

Hátíðin hefst á fimmtudagskvöld og kl. 17 þann dag opnar útisvæði hennar fyrir gesti og gangandi. Aðgangur er ókeypis og 20 ára aldurstakmark. Margt er þar í boði þessa opnunarhelgi.

  • Sóli Hólm ásamt hljómsveit er fyrstur á dagskrá í Bylgjutjaldinu kl. 19.30 í ár líkt og í fyrra
  • Hreimur stjórnar PubQuiz alla fimmtudaga frá kl 17.00 í tjaldinu
  • Stuðlabandið mætir í fyrsta sinn á útisvæðið laugardaginn 29. júní kl. 19.30

Þverskurður tónlistarlífsins

Hátíðin stendur frá 27. júní til 28. júlí; eins mánaðar gleðisprengja. „Þverskurður af tónlistarlífinu á Íslandi verður hér hjá okkur,“ segir Palli í Bæjarbíói. „Allt frá Emmsjé Gauta í Papa. Una Torfa mætir, já 40 tónlistaratriði,“ segir hann og lýsir því hvernig Hjarta Hafnarfjarðar stækkar með hverju árinu.

„Við héldum fyrstu hátíðina árið 2017 með 20 fermetra tjaldi. Hingað komu 1500 manns. Núna erum við með 600 fermetra af tjöldum og tökum við margfalt fleiri gestum,“ segir hann.

KK og Mugison slá botninn í þessa viðamiklu tónlistar- og bæjarhátíð. Þeir eru spenntir: „Vanalega spilum við bara saman í desember en við gátum ekki með nokkru móti hafnað því þegar okkur bauðst að spila í þessu geggjaða húsi á þessari stórskemmtilegu hátíð,“ er haft eftir þeim á vef Bæjarbíós.

20 ára aldurstakmark

Hátíðarsvæðið við Bæjarbíó verður opið fimmtudaga, föstudaga og laugardaga á milli kl. 17-23. Sjá má dagskrána á Bæjarbíó.is. 20 ára aldurstakmark er á hátíðina. Þar má njóta skyndibita og drykkjar og þrír matarvagnar á svæðinu. Þjónustan öll er að aukast.

„Já, við mætum eftirspurninni,“ segir Palli. „Við erum meira að rýmka til á svæðinu heldur en að belgja út. Meira pláss fyrir fólk, fleiri salerni og stærri tjöld. Já, það tekur sinn tíma fyrir hátíð sem þessa að festa sig í sessi og við gefum okkur áratuginn. Við erum afar stolt af Hjarta Hafnarfjarðar.“

Undirbúningur stendur sem hæst. Njótum saman!

Ábendingagátt