Hjarta Hafnarfjarðar er nú bleikt

Fréttir

Hjarta Hafnarfjarðar skartar bleikum ljósum í tilefni þess að Bleikur október hefur hafið innreið sína. Hjartað var ekki aðeins skreytt ljósunum bleiku nú í byrjun mánaðarins heldur einnig starfskonum Hafnarfjarðarbæjar sem stöldruðu þar við kvöldstund til að hvetja stallsystur sínar til að sýna árverkni.

Bleikur október er fyrir okkur

„Við erum bleikar. Við höfum greinst, verið gripnar eða staðið með okkar fólki í veikindum. Nú er Bleikur október og því hvetjum við allar til að fylgjast með sér, fara í skimun ­– Það einfaldar lífið,“ segja þær Hulda Þórarinsdóttir, Helga Snorradóttir, Kristín Jónsdóttir, Þórey Ósk Sæmundsdóttir, Jenný Dagbjört Gunnardóttir og Karítas Guðmundsdóttir, allar á mennta- og lýðheilsusvið bæjarins hér með Gunnhildi Örnu Gunnarsdóttur og Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra. Já, í þessum hópi eru sigurvegarar sem vita hversu mikilvægt er að fylgjast með sér sem og aðstandendur.

Árverknisátak gegn krabbameinum

Bleikur október er árlegi árverknistími tileinkaður baráttunni gegn krabbameinum í konum. Í ár beinir Krabbameinsfélagið athyglinni að aðstandendum undir slagorðinu „Þú breytir öllu”. Á vef Krabbameinsfélagsins segir: „Við viljum þakka þeim sem hvorki búast við né ætlast til að fá þakkir, fólkinu sem er svo mikilvægt en á það til það að gleymast – aðstandendum.“

Á síðunni er einnig greint frá því að á Íslandi greinist að meðaltali 971 kona með krabbamein á ári hverju. „Sem betur fer eru stöðugar framfarir í greiningu og meðferð sem leiða til þess að fleiri og fleiri lifa af. Í árslok 2023 voru 10.070 konur á lífi sem fengið höfðu krabbamein en því miður eru krabbamein enn stærsti orsakavaldur ótímabærra dauðsfalla á Íslandi og á hverju ári missum við að meðaltali um 306 konur úr krabbameinum.“

Bleiki dagurinn 23. október

Þriðjudaginn, 1. október hófst þetta árlega árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélagsins tileinkað baráttunni gegn krabbameinum hjá konum. Þann 23. október klæðumst við svo bleiku.

Ábendingagátt