Hjúkrunarheimili í Hafnarfirði

Fréttir

Heilbrigðisráðherra hefur staðfest nýjan samning milli velferðarráðuneytisins og Hafnarfjarðarkaupstaðar um byggingu 60 rýma hjúkrunarheimilis í bæjarfélaginu. Áætlað er að heimilið verði tilbúið vorið 2018.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur staðfest nýjan samning milli velferðarráðuneytisins og Hafnarfjarðarkaupstaðar um byggingu 60 rýma hjúkrunarheimilis í bæjarfélaginu. Samningurinn kemur í stað eldri samnings frá árinu 2010 sem ekki komst til framkvæmda en Hafnarfjörður var í upphaflegum hópi sveitarfélaga sem ákveðið var að semja við um byggingu hjúkrunarheimilis samkvæmt svokallaðri leiguleið.  Áætlað er að heimilið verði tilbúið vorið 2018.

Bæjarfélagið leggur heimilinu til lóð, í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu, og hefur ákveðið að það verði byggt á lóð Sólvangs við Sólvangsveg. Samkvæmt samningnum mun Hafnarfjarðarkaupstaður bera alla ábyrgð á framkvæmd verksins, þ.e. hönnun og byggingarframkvæmdum og fjármögnun framkvæmdanna. Við hönnunina skal fylgja viðmiðum velferðarráðuneytisins um skipulag hjúkrunarheimila  þar sem áhersla er lögð á að aðstæður séu sem heimilislegastar en mæti engu að síður þörfum fólks með skerta getu og þörf fyrir hjúkrun, þjálfun og endurhæfingu.

Byggt verður samkvæmt leiguleið sem er samkvæmt lögum um málefni aldraðra. Í því felst að 85% stofnframlag ríkisins og Framkvæmdasjóðs aldraðra greiðist mánaðarlega sem leiga frá þeim tíma sem hjúkrunarheimilið hefur verið afhent til notkunar. Kostnaðarhlutdeild sveitarfélagsins er 15%. Hjúkrunarheimilið verður eign Hafnarfjarðarkaupstaðar en óheimilt er að framselja eignarrétt að hjúkrunarheimilinu á samningstímanum sem er til 40 ára. Sjúkratryggingar Íslands munu auglýsa eftir rekstraraðila fyrir hjúkrunarheimilið tólf mánuðum áður en verklok eru fyrirhuguð.

Ábendingagátt