„Hlakkar þú til jólanna?“

Fréttir Jólabærinn

Sjáðu hollráð Margrétar Lilju, Millu, Fríkirkjuprests úr Jólablaði Hafnarfjarðarbæjar. Ekki er seinna vænna en að muna hvert markmiðið með jólastússinu er.

Jólahugvekja Millu

„Í aðdraganda jólanna erum við gjarnan spurð að því hvort við hlökkum til jólanna. Þau bera ósjálfrátt með sér væntingar. Á meðan verkefnalistinn er langur megum við alls ekki gleyma að njóta og vera glöð, hamingjusöm og skemmtileg. Samfélagið gerir þá kröfu að við finnum til eftirvæntingar. Hlökkum til,“ ritar Margrét Lilja Vilmundardóttir, prestur í Fríkirkjunni í Hafnarfirði í Jólablað Hafnarfjarðarbæjar.

„Á sama tíma og eftirvæntingin er vissulega mikil hjá mörgum geta jólin verið kvíðvænleg fyrir aðra. Það er einhvern veginn þannig að allar tilfinningar og öll líðan magnast upp í kringum hátíðarnar. Tilfinningarnar eru miklar og djúpar. Gleðin er aldrei meiri og sorgin aldrei þyngri. Ástin er aldrei stórbrotnari og einsemdin einmanalegri. Lífið í sinni tærustu og hráustu mynd. Lífið í sinni fallegu mynd.

Kannski eiga jólin einmitt að vera þannig. Jólin sem minna okkur á að þrátt fyrir kolniðamyrkur hávetrar þá mun hlý birtan aftur verma veröldina. Jólin sem minna okkur á ljósið sem fæddist í heiminn, lítið og viðkvæmt en um leið svo óendanlega sterkt og kraftmikið. Lítið barn, Jesúbarnið, upphaf alls, nýtt líf. Vonin sjálf.

Í þessu samhengi er fallegt að virða fyrir sér jólaljósin sem prýða hús og garða og eru örlítið kærleiksverk íbúanna sem senda birtu út í heiminn til okkar sem fram hjá förum. Jólaljósin sem bera vitni um samstöðu og von og þá staðreynd að kærleikurinn er mestur.

Guð gefi ykkur gleðileg jól.“

Hugvekja Margrétar Lilju Vilmundardóttur, fjögurra barna móður og prests í Fríkirkjunni í Hafnarfirði

……..

www.frikirkja.is

 

Jólablað Hafnarfjarðar 2025 – vefútgáfa:

 

Hollráð Millu

  • Lífið okkar er núna. Notum sparifötin, kveikjum á fallegu kertunum og notum sparistellið. Segjum þeim sem við elskum að við elskum. Eftir hverju erum við alltaf að bíða?
  • Tækifærið til að lifa fallega er í dag. Hver segir að glimmerkjóllinn, háu hælarnir, rauði varaliturinn, jakkafötin og slaufan séu bara viðeigandi örfáa daga á ári. Það er dásamlegt að lyfta upp hvunndeginum með því fallega sem við eigum …
  • Þakklæti er læknandi tilfinning og kærleikurinn er alltaf mestur. Þegar við elskum fólk, dýr og sköpunina alla skilar það sér alltaf til baka í fallegri heimi.
  • Bros þýðir það sama á öllum tungumálum. Brosum hvert framan í annað og óskum hvert öðru alls hins besta. Það gerir lífið betra fyrir okkur öll.
  • Vanmetum aldrei getu okkar til góðra verka. Hvert og eitt okkar getur gert mikið gagn og litlu hlutirnir skipta oft mestu máli.

 

Ábendingagátt