Hljóðön – Íslensku tónlistarverðlaunin 2020

Fréttir

Hljóðön – sýning tónlistar, sem stóð yfir í Hafnarborg 26. janúar–3. mars síðasta árs, hefur hlotið tilnefningu sem tónlistarviðburður ársins (einstakir tónleikar) í flokki sígildrar og samtímatónlistar á Íslensku tónlistarverðlaununum 2020

Hljóðön – sýning tónlistar,
sem stóð yfir í Hafnarborg 26. janúar–3. mars síðasta árs, hefur hlotið
tilnefningu sem tónlistarviðburður ársins (einstakir tónleikar) í flokki
sígildrar og samtímatónlistar á Íslensku tónlistarverðlaununum 2020. Í rökstuðningi dómnefndar um sýninguna segir: „Spennandi
og frumleg sýning með áhrifaríkum upphafstónleikum. Hér var unnið með samspil
tónlistar og rýmis og flutningur Jennifer Torrence á verkinu Níu bjöllur
eftir Tom Johnson var einkar vel heppnaður.“

Sýningin fagnaði fimm ára
starfsafmæli samnefndrar tónleikaraðar, sem hefur verið á dagskrá Hafnarborgar
allt frá árinu 2013 og tileinkuð er samtímatónlist. Við opnun sýningarinnar
flutti Jennifer Torrence verkið Níu bjöllur, líkt og nefnt er í
rökstuðningi dómnefndar, en flutningur verksins á tónleikum Hljóðana haustið
2016 (þá flutt af Frank Aarnink) var einmitt kveikjan að sjálfri sýningunni,
þar sem tónlist og myndlist mættust í tímalausu rými safnsins.

Þeir listamenn sem áttu verk á
sýningunni voru Ásta Ólafsdóttir,
Steina, Steinunn Eldflaug Harðardóttir,
Logi Leó Gunnarsson,
Jón Gunnar Árnason,
James Saunders,
Bergrún Snæbjörnsdóttir,
Magnús Pálsson,
Tom Johnson, Curver Thoroddsen og Einar Torfi Einarsson.
Sýningarstjóri var Þráinn Hjálmarsson, tónskáld og listrænn stjórnandi
tónleikaraðarinnar Hljóðana.

Í
tengslum við sýninguna var einnig boðið upp á veglega dagskrá, m.a. tónleika,
aðra tónlistartengda viðburði og gjörninga, með fjölda innlendra og erlendra
myndlistar- og tónlistarmanna, svo sem Haraldi
Jónssyni
, Ástu
Fanneyju Sigurðardóttur
, Marko
Ciciliani
, Barböru
Lüneburg
, Skerplu,
Berglindi M. Tómasdóttur
og fleirum. Voru tónleikarnir jafnframt hluti af dagskrá Myrkra músíkdaga, sem
hljóta samtals fjórar tilnefningar að þessu sinni.

Hafnarborg
þakkar dómnefnd og aðstandendum Íslensku tónlistarverðlaunanna kærlega fyrir
þann heiður sem stofnuninni og þátttakendum sýningarinnar er sýndur með þessari
tilnefningu.

Frekari upplýsingar
veitir: Hólmar Hólm,
kynningarfulltrúi, s. 585 5793

Ábendingagátt