Hlusta á ungt fólk og hjálpa

Barnvænt sveitarfélag Fréttir

Götuvitinn er öryggisnet fyrir unga fólkið okkar og starfar nú í fyrsta sinn að sumri til. Unga fólkið þekkir Götuvitann frá vetrarstarfinu í félagsmiðstöðvum bæjarins.

Götuvitinn fyrir unga fólkið

„Unga fólkið getur treyst okkur þegar það sér okkur í bláa litnum,“ segir Gísli Geir Gíslason, sem starfar við Götuvitann í sumar rétt eins og þau Jón Leví Steinsson og Saga Guðlaugsdóttir. Þau lýsa mikilvægi þess að unglingar geti sest niður og treyst á fullorðinn einstakling, fengið hjálp í erfiðum aðstæðum eða eyru sem heyra. „Við viljum að þau finni öryggi í bláa litnum.“ Greinin hér birtist í Fjarðafréttum.

Götuvitinn er flakkandi félagsmiðstöð og er þetta í fyrsta sinn sem hann starfar að sumri til en unga fólkið þekkir hann frá vetrarstarfinu í félagsmiðstöðvum bæjarins. Það sér þennan sæbláa lit víðar, því öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu nýta hann fyrir þetta forvarnarstarf. Þar fær unga fólkið okkar skjól.

En hvernig starfa þau hjá Götuvitanum? „Við kíkjum á unglinga sem eru í vinnuskólahópunum, myndum traust og byggjum upp tengsl. Við tökum stemninguna, heyrum hvað hvílir á þeim og erum svo til staðar ef þau þurfa á okkur að halda,“ segir Jón Leví.

Saga Guðlaugsdóttir, Jón Leví Steinsson og Gísli Geir Gíslason starfa fyrir Götuvitann í sumar. Þau setjast niður og ræða málin á léttu nótunum við unglingana – eru til staðar.

Samband um Instagram

Unglingarnir viti að alltaf sé hægt að kalla þau hjá Götuvitanum til. „Það er hægt að hafa samband við okkur á Instagram,“ segir Jón Leví. „Krakkarnir geta nýtt sér það ef þau eru í aðstæðum sem þau ráða ekki við; sjá slagsmál, eru hrædd eða eru í partýi sem er að fara úr böndunum. Já, þá er er alltaf hægt að ná í okkur.“

Götuvitinn vinnur með samfélagslöggunum sem unga fólkið þekkir og segja þau Gísli, Saga og Jón Leví unglingana oft ekki þora að kalla lögguna til og því sé afar gott að þau hafi Götuvitann. Þau séu traustsins verð. Saga segir mannleg samskipti verkfæri þeirra númer 1, 2, og 3. Þau hafi byggt upp reynslu. Gísli grípur orðið.

„Já, reynslan tekur okkur langt í þessu starfi,“ segir hann „Kakkarnir sem við vinnu með þurfa að tala og pústa. Það er mikið að gerast í lífi þeirra. Þau þurfa að geta sagt fullorðnum frá og við erum hér fyrir þau.“

Saga, Gísli og Jón segir fyrsta mánuðinn hafa gengið vonum framar. „Við höfum kynnst mörgum og sjáum nú hvernig hóparnir teygja sig milli skóla. Hér er ákveðið Hafnarfjarðarnet unglinga. Þetta er þéttur hópur,“ segir þau.

Þörf á Götuvitanum

Götuvitinn hefur starfað lengi en með meiri þunga síðustu ár en mörg á undan. „Þörfin er einfaldlega meiri. Segja má að samfélögin hafi sofið á verðinum. Unglingadrykkja hefur aukist, þau geta auðveldlega nálgast hörð efni. Við finnum því ákall núna og höfum spýtt í lófana til að halda unglingunum okkar á réttri braut og í tengslum við umhverfi sitt.“

Götuvitinn heldur svo inn í veturinn og starfa þá eins og unga fólkið þekkir hann. Sami litur, nýr vettvangur í vetur. „Já, við verum til staðar fyrir þau ungmenni og frábært að hafa náð að mynda tengsl við svo mörg í sumar.“

 

 

 

Ábendingagátt