Hnefaleikar fá fasta aðstöðu í Hafnarfirði – Félagið 20 ára

Fréttir

Hnefaleikafélag Hafnarfjarðar heldur upp á 20 ára afmælið sitt á morgun laugardag, en í morgun ritaði félagið undir samning við Hafnarfjarðarbæ um glæsilega nýja aðstöðu. Aðstaðan verður vígð á morgun.

Hnefaleikafélag Hafnarfjarðar 20 ára

Stefnt er að því að fjölga hnefaleikaiðkendum í Hafnarfirði. Bærinn hefur gert samningurinn um umsjón og rekstur glænýrrar 2000 fermetra íþróttaaðstöðu félagsins í Hnefaleikaaðstöðunni, Suðurhellu 5. 20 ára afmæli og opnunarhátíð húsnæðisins verður haldið laugardaginn 25. október. 

Valdimar Víðisson bæjarstjóri segir það virkilega ánægjulegt að sjá hnefaleika fá svona glæsilega aðstöðu í Hafnarfirði. Þetta er ekki bara húsnæði heldur vettvangur fyrir börn og ungmenni til að styrkja líkama og huga og fyrir marga að finna sína íþrótt. Ég óska HFH, starfsfólki og iðkendum, hjartanlega til hamingju með glæsilega aðstöðu. 

Gunnar Óli Guðjónsson, formaður Hnefaleikafélagsins, segir aðstöðuna gríðarlegt stökk upp á við frá því sem verið hefur. „Við vorum í bráðabirgðahúsnæði og í lausu lofti. Við erum núna að koma okkur fyrir á nýjum stað, erum á lokametrunum.“  

Gunnar Óli segir fyrra húsnæði hafa staðið félaginu fyrir þrifum. „Við misstum fólk frá okkur út af lélegri aðstöðu. Við stefnum nú að því að fjölga aftur og verða um 100.“ Hann segir staðsetninguna mjög hentuga. Fjöldi barna á Völlunum æfi ekki íþróttir, finni sig ekki í þessum hefðbundnu en myndu blómstra í hnefaleikum. 

„Við ætlum líka að vinna með Krýsuvíkursamtökunum. Það vantar úrræði. Strákar komnir langt út af sporinu. Við ætlum að fara í mikla forvarnarvinnu og erum þannig íþróttafélag og sport að við sinnum þessm 5% sem finna sig ekki í íþróttum en passa hjá okkur. Valdimar bæjarstjóri skilur þetta sem fyrrum skólastjóri,“ segir Gunnar Óli. 

Hann segir mikla uppsveiflu í sportinu. „Við Íslendingar erum með atvinnumann í 60. sæti á heimslistanum í þungavigt, Kolbeinn Kristinsson.18 bardagar, 18 sigrar og 12 rothögg. Hann er mikil fyrirmynd,“ segir Gunnar Óli. 

Samkvæmt samningnum fá grunnskólabörn tækifæri til að kynnast hnefaleikum. Þá hafa aðrar varnar- og bardagaíþróttagreinar; Jiu jitsu, karate, Taekwondo, Sambó, júdó og aðrar sambærilegar möguleika á aðgangi að æfingarhúsnæðinu sé um það samið sérstaklega um það hverju sinni. 

Innilega til hamingju með afmælið og þessi frábæru tímamót.

 

Dagskrá afmælis- og opnunarhátíðar

Diplómamót frá kl. 10-16
Ræður og afmæliskaka kl. 17
Kongabikarmót kl. 18 

Hlökkum til að sjá ykkur!  

Ábendingagátt