Höfgar Nauðir – Skapandi sumarstörf

Fréttir

Listakonan og aðgerðarsinninn, Þorbjörg Signý Ágústsson, hefur á vegum skapandi sumarstarfa í Hafnarfirði, unnið að innsetningarverkinu Höfgar Nauðir, sem snertir djúpt á mikilvægum málefnum varðandi aðstöðu kvenna hérlendis.

Róttækt innsetningarverk í mótun 

Málefni sem skiptir máli

Listakonan og aðgerðarsinninn, Þorbjörg Signý Ágústsson, hefur á vegum skapandi sumarstarfa í Hafnarfirði, unnið að innsetningarverkinu Höfgar Nauðir, sem snertir djúpt á mikilvægum málefnum varðandi aðstöðu kvenna hérlendis.

Þorbjörg segir verkið eiga að túlka og standa fyrir því misrétti sem snertir allar konur á einn eða annan hátt. Konur upplifi misrétti í samfélaginu í dag s.s. fordóma, kyngervingu, óöryggi á almenningstöðum dags og nætur , ásamt fleiru.

Sterkur boðskapur túlkaður í strúktúr

Þorbjörg hóf vinnu við listaverkið fyrir rúmu einu og hálfu ári síðan þegar hún var í námi, en í síðan þá hefur verkið þróast en fylgir þó sama söguþræði.

Thumbnail_beinagrind

Styttan, sem hún hefur byggt sjálf frá grunni, er í raunstærð og hefur viðarbeinagrind og byggð aðallega úr hænsnavír og dagblöðum. Til að halda verkinu eins endingargóðu og mögulegt er, sérstaklega þar sem Þorbjörg myndi vilja sýna verkið utandyra, mun hún bera steypu utan á vírgrindina. Gínur munu svo umkringja styttuna með áföstum keðjum sem eiga að tákna þau samfélagslegu höft sem settar eru á konur. Hugmyndin er að festa eða hengja keðjurnar í loft, veggi og götur, þó án þess að raska umhverfið.

Vill opna umræðuna um misrétti kvenna í samfélaginu 

Markmið Þorbjargar er að opna umræðuna og fá konur til tala opinskátt um þeirra eigin höft og forréttindi en einnig til að gera misréttið áþreifanlegt. „Þegar áhorfendur fá að njóta listaverksins í nálægð, verður erfitt að neita þeim harða raunveruleika málsins, þegar þeir standa, horfa á og upplifa þessar hindranir sem konur verða fyrir í samfélaginu“, segir Þorbjörg

Hún leggur því mikla áherslu á að líta nánar á hvernig samfélagið kemur mismunandi fram við konur ut frá húðlit, uppruna, menntun, fötlun og efnahag. Þetta málefni er henni mjög kært og segir hún stolt hennar með verkið aukast með degi hverjum.

 

Thumbnail_innsetningarverk_ThorbjorgSigny

 

Mikið þakklæti og mikilvægur stuðningur

Þorbjörg segist vera virkilega þakklát fyrir þetta tækifæri og þá frábæru reynslu sem skapandi sumarstörf Hafnarfjarðar hafa veitt henni, til að leyfa sköpunarkrafti hennar og tjáningu hennar á mikilvægu málefni að láta ljós sitt skína. Hún þakkar fyrir frelsið og það sjálfstæði sem fylgir því að vinna verkið.  Einnig þeim stuðningi sem hún hefur hlotið við gerð þess í sumar frá félagsmiðstöðinni Hamrinum. Húsasmiðjan hefur einnig hjálpað til við að gera verkið að veruleika, með því að styrkja Þorbjörgu með ýmsum efnivið.

Það er hægt að fylgjast með ferlinu og gerð verksins á samfélagsmiðlunum Höfgar Nauðir. Þorbjörg hefur náð myndum af öllu ferlinu til dagsins í dag og mun halda því áfram þar til sýning á því hefst. Verkið er komið lang leiðina að endanlegu útliti, en hægt er að fylgjast með verkinu á Instagram og Facebook.

 Thumbnail_image0

Skapandi sumarstörf eru hluti af Vinnuskóla Hafnarfjarðar – níu verkefni sumarið 2021

Skapandi sumarstörf hjá Hafnarfjarðarbæ eru hluti af sumarstarfi Vinnuskóla Hafnarfjarðar. Skapandi sumarstörf eru auglýst sérstaklega og býðst einstaklingum og hópum að skila inn með umsókn sinni hugmyndum að skapandi verkefnum sem eru til þess fallin að glæða bæinn enn meira lífi yfir sumartímann, gera hann enn skemmtilegri, fallegri og fjölbreyttari með listrænum og skapandi uppákomum. Horft er sérstaklega til fjölbreytileika verkefna og þess að þau höfði til mismunandi aldurshópa og áhugasviða. Valdir hópar fá svo tækifæri til að lífga upp á mannlíf og skemmtun í hjarta Hafnarfjarðar og gleðja ferðamenn og íbúa með alls kyns uppátækjum. Höfgar Nauðir er eitt þessara verkefna. Átta önnur skapandi verkefni eru starfrækt hjá Vinnuskóla Hafnarfjarðar í ár og munu þessi verkefni einnig verða kynnt á miðlum bæjarins.

Ábendingagátt