Höfn í Hafnarfirði – ný tengsl og vinabönd  

Fréttir

Ungmennaráð Hafnarfjarðar varði síðustu helgi á Höfn í Hornafirði í yndislegu veðri með ungmennum í ungmennaráði Hornafjarðar. Heimsóknin er hluti af samstarfsverkefninu Höfn í Hafnarfirði sem styrkt er af Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins.

Metnaðarfullt samstarfsverkefni tveggja ungmennaráða

Ungmennaráð Hafnarfjarðar varði síðustu helgi á Höfn í Hornafirði í yndislegu veðri með ungmennum í ungmennaráði Hornafjarðar. Heimsóknin er hluti af samstarfsverkefninu Höfn í Hafnarfirði sem styrkt er af Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins og hefur það að markmiði að ungmennaráðin finni leiðir til að virkja til þátttöku jaðarsett ungmenni á borð við ungt fólk af erlendum uppruna, ungt fatlað fólk og ungt hinsegin fólk þannig að ungmennaráðin endurspegli betur fjölbreytileika samfélagsins og að allt ungt fólk hafi rödd. Sveitarfélögin tvö eiga það m.a. sameiginlegt að nokkuð stór hluti íbúa er af erlendum uppruna.

Niðurstöður samstarfsins nýttar í þágu alls ungs fólks

Fyrri hluti verkefnisins fór fram í Hafnarfirði dagana 20. til 23. apríl, en þá heimsóttu Hornfirðingarnir Hamarinn, ungmennahús Hafnarfjarðar. Þar hlýddu þau á fyrirlestra frá ungu hinsegin fólki, fötluðu fólki, fólki af erlendum uppruna, flóttafólki og UNICEF. Nú var röðin komin að Höfn og þar nýttu ungmennin helgina til að framleiða heimildarmynd þar sem þau ætla að miðla öllu ferlinu og því sem þau hafa lært af því. Markmiðið er svo að önnur ungmennaráð vítt og breytt um landið geti lært eitthvað af þessu öllu saman og nýtt niðurstöður verkefnisins í þágu alls ungs fólks.

Rýni og fræðsla um fjölbreytileika skilar sér í heimildarmynd  

Auk þess að vinna að gerð heimildarmyndarinnar nýttu ungmennin tímann vel til að skoða fallegt umhverfi Hornafjarðar. Hápunktur ferðarinnar var tvímælalaust þegar hópurinn stakk sér til sunds ofan í hyl á leynistað í nágrenni Haukafells í 20 stiga hita. Um helgina mynduðust ný vinabönd og það má segja að tengsl sveitarfélaganna hafi styrkst til muna. Ungmennin eru sammála um að halda samstarfinu áfram á næstu árum.

Nánari upplýsingar um ungmennaráð Hafnarfjarðar

 

Ábendingagátt