Hönnun hjúkrunarheimilis

Fréttir

Skrifað hefur verið undir samning vegna hönnunar og ráðgjafar nýs hjúkrunarheimilis á Sólvangsreitnum. Að undangengnu útboði var ákveðið að ganga til samninga við fyrirtækið  Úti og Inni sf.

Skrifað hefur verið undir samning vegna hönnunar og ráðgjafar hjúkrunarheimilisins sem mun rísa á Sólvangsreitnum í Hafnarfirði. Að undangengnu útboði var ákveðið að ganga til samninga við fyrirtækið  Úti og Inni sf.

Um er að ræða 60 rýma hjúkrunarheimili og eru verklok áætluð í apríl 2018. Hugmyndir bæjaryfirvalda í Hafnarfirði eru á þá leið að tengja bygginguna við Sólvang og nýta Sólvang að hluta sem þjónustumiðstöð fyrir eldri borgara í sveitarfélaginu. Ákvörðunin er í samræmi við stefnumótun í málefnum eldri borgara í Hafnarfirði þess efnis að Sólvangur verði miðstöð öldrunarþjónustu í sveitarfélaginu. Þar er nú þegar fyrir hendi ýmis stoðþjónusta sem mikilvægt er að sé til staðar í nærumhverfi nýs hjúkrunarheimilis.

Verkefnastjórn um uppbyggingu hjúkrunarheimilisins hefur umsjón með útboði á byggingu og lóðarfrágangi og skal fylgja verkefninu eftir allt til þess að bygging og lóð eru fullkláruð og rekstur hjúkrunarheimilinu hefst.  Stefán B. Veturliðason hefur verið ráðinn verkefnisstjóri. Sigurður Haraldsson, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagsþjónustu skrifaði undir samninginn fyrir hönd Hafnarfjarðarbæjar og Baldur Ó. Svavarsson og Jón Þór Þorvaldsson fyrir hönd Úti og inni sf. 

Verkefnastjórnin er þannig skipuð:

Helga Ingólfsdóttir (formaður), Guðlaug Kristjánsdóttir, Sigurður P. Sigmundsson, Gylfi Ingvarsson, Birna Ólafsdóttir, Þórdís Bakkmann Kristinsdóttir og Elísabet Valgeirsdóttir.  Auk þess starfa sviðsstjórar umhverfis- og skipulagsþjónustu og fjölskylduþjónustu með stjórninni.

Ábendingagátt