HönnunarMars í Hafnarfirði 2022

Fréttir

Lögð verður sérstök áhersla á hönnun í söfnum og menningarhúsum Hafnarfjarðar næstu dagana. Hafnarborg, Bókasafn Hafnarfjarðar og Bæjarbíó eru í hópi þeirra rúmlega 100 sýninga, 400 þátttakenda og 250 viðburða sem taka þátt í Hönnunarmars 2022, stærstu hönnunarhátíð landsins. Með þátttökunni vill Hafnarfjarðarbær vekja sérstaka athygli á gróskumikilli hönnun í bænum.

Sérstök athygli vakin á gróskumikilli hönnun í Hafnarfirði 

Lögð verður sérstök áhersla á hönnun í söfnum og menningarhúsum Hafnarfjarðar næstu dagana. Hafnarborg, Bókasafn Hafnarfjarðar og Bæjarbíó eru í hópi þeirra rúmlega 100 sýninga, 400 þátttakenda og 250 viðburða sem taka þátt í Hönnunarmars 2022, stærstu hönnunarhátíð landsins. Með þátttökunni vill Hafnarfjarðarbær vekja sérstaka athygli á gróskumikilli hönnun í bænum.

GakktuIBaeinn2022Öðru hvoru blása vinnustofur listamanna, söfn og verslanir í Hafnarfirði til lengri opnunar m.a. með viðburðinum Gakktu í bæinn. Nú síðast föstudagskvöldið 22. apríl sl.Mynd: Hulda Margrét. 

HönnunarMars teygir anga sína til Hafnarfjarðar

HönnunarMars, stærsta hönnunarhátíð á Íslandi, fer fram dagana 4.-8. maí og teygir anga sína til Hafnarfjarðar þar sem framsækin hönnun og nýjungar leiða saman sýnendur og gesti. Mörg hundruð viðburðir, sýningar, fyrirlestrar, uppákomur og innsetningar eru á dagskránni ár hvert, skipulagðir af íslenskum hönnuðum og arkitektum, fyrirtækjum og stofnunum.

Bókasafn Hafnarfjarðar

Höfundur mánaðarins í Bókasafni Hafnarfjarðar er listakonan og rithöfundurinn Sólveig Eva Magnúsdóttir sem opnar myndasögusýningu í tilefni af HönnunarMars á nýjustu verkum sínum úr bókinni Space Mama Piggy þann 5. maí næstkomandi og mun einnig lesa úr verkinu á opnuninni kl. 16-18. Myndasagan hefur áður verið kynnt á Stockholm Fringe, Pittsburgh Fringe, Reykjavík Fringe og hefur hlotið styrk frá Myndstef og Myndlistarsjóði. Útgefið 30 blaðsíðna eintak seldist upp í Bandaríkjunum og höfundur vinnur nú að 200 blaðsíðna útgáfu verksins. Sólveig mun einnig stýra sumarnámskeiði í grafríksögugerð og myndasöguskrifum á Bókasafni Hafnarfjarðar í sumar fyrir unga listamenn og unglinga sem langar að spreyta sig á þessu formi ritlistar.

Bæjarbíó

ID Reykjavik er nýtt íslenskt vörumerki með húsgögn og hönnunarvöru fyrir heimilið. Innblástur vörulínanna eru sóttar í arkitektúr og náttúru Íslands en nýting íslenska hraunsins í bland við önnur hráefni svo sem stál, við, leður og postulín gefa vörunum sérstaka fágun og verðskuldaða athygli. Bæjarbíó Hafnarfirði opnar dyr sínar fyrir gestum og gangandi á vörusýningu ID Reykjavik 4.-8. maí. Einnig verður brot úr línunni sýnt á samsýningu Epal, Íslensk hönnun í sinni litríkustu mynd.

Opnunartímar á sýningunni í Bæjarbíói eru eftirfarandi:

  • Miðvikudagur 16-21
  • Fimmtudagur 16-21
  • Föstudagur 12-21
  • Laugardagur 12-17
  • Sunnudagur 13-17

Hafnarborg

Sýning Fléttu og Kristínar Sigurðardóttur, Efnisheimur steinullar, stendur nú yfir í Sverrissal Hafnarborgar í tengslum við HönnunarMars 2022. Á sýningunni er veitt innsýn í yfirstandandi efnisrannsókn þeirra á íslenskri steinull, þar sem þær vinna með ólíkar leiðir til að umbreyta steinull í nýtt efni. Opnun sýningarinnar Efnisheims steinullar verður fagnað formlega með kvöldopnun í safninu fimmtudaginn 5. maí kl. 18-20. Einnig verður boðið upp á leiðsögn um sýninguna með hönnuðunum laugardaginn 7. maí kl. 14.

Snert á landslagi er vinnutitill yfirstandandi doktorsverkefnis Tinnu Gunnarsdóttur, vöruhönnuðar, þar sem áhersla er lögð á að virkja fagurferðilega upplifun í landslagi sem afl til umbóta. Á samnefndri sýningu í aðalsal Hafnarborgar má sjá verk frá öllum ferli Tinnu en þungamiðja sýningarinnar byggir á áralangri rannsókn hennar í Héðinsfirði á norðanverðum Tröllaskaga.

Málþing um verkefnið fer fram í Hafnarborg laugardaginn 7. maí kl. 11-13. Þátttakendur í málþinginu eru Tinna Gunnarsdóttir, vöruhönnuður, Guðbjörg R. Jóhannesdóttir, lektor við Listaháskóla Íslands, og Aldís Arnardóttir, sýningarstjóri og forstöðumaður Hafnarborgar. Sýningarnar í Hafnarborg eru opnar alla daga, nema þriðjudaga, kl. 12-17 – og standa yfir til 15. maí.

Sjáumst á HönnunarMars í Hafnarfirði!

Aðgangur ókeypis – allir hjartanlega velkomnir! 

Ábendingagátt