Hörðuvellir fagna 90 árum með ljósmyndasýningu

Fréttir

Hörðuvallaleikskóli er 90 ára. Byggðasafn Hafnarfjarðar opnar af því tilefni á ljósmyndasýningu við Hörðuvallatún á myndum úr gríðarstóru og merkilegu ljósmyndasafni skólans.

Hörðuvellir eiga afmæli á föstudag

Hörðuvallaleikskóli er 90 ára. Byggðasafn Hafnarfjarðar opnar af því tilefni á ljósmyndasýningu á myndum úr gríðarstóru og merkilegu ljósmyndasafni skólans. Þetta eru myndir sem hafa verið teknar í gegnum tíðina í skólanum og af starfinu í árdaga. Stefnt er að því að sýningin verði komin upp á föstudag.

Afhjúpa fyrsta skiltið

Myndirnar verða hengdar á girðinguna við Hörðuvallatún og stendur sýningin yfir út sumarið. Við tökum hér forskot á sæluna og sjáum eitt þeirra. Þar segir:

Stjórn Verkakvennafélagsins Framtíðarinnar hélt fund mánudagskvöldið 14. mars 1932. Þar vakti Sigríður Erlendsdóttir máls á því að nauðsynlegt væri að koma á stofn dagheimili fyrir börn verkakvenna í bænum. Tilgangurinn var að gefa konum í Hafnarfirði tækifæri til að hafa börn sín í öruggri gæslu á meðan þær stunduðu vinnu utan heimilis.

Málið kom til umræðu hjá félaginu næstu misserin uns ákvörðun var tekin á félagsfundi, ári síðar, um að stofna dagheimili og tók það til starfa 19. maí 1933. Fyrstu tvö árin var það til húsa í bæjarþingsalnum í gamla barnaskólanum við Suðurgötu og starfaði í þrjá mánuði yfir sumarið. Í ágúst 1934 sótti félagið um lóð við Hörðuvelli til að reisa hús yfir starfsemina og var hafist handa við byggingu hússins í mars árið eftir. Starfsemi hófst í nýju húsi með vígslu sunnudaginn 2. júlí 1935. Í samtímaheimild var húsinu lýst á eftirfarandi hátt: „Hús þetta er smíðað úr timbri, einlyft, með kjallara undir nokkrum hluta þess … í húsinu er salur, stórt og rúmgott eldhús, baðhús og hreinlætistæki. Sunnan undir því er sólbyrgi. Húsið er raflýst, og hið vistlegasta að öllu leyti.“ Þetta sumar dvöldu 37 börn á heimilinu og var það opið frá kl. 7 á morgnana til kl. 18 síðdegis.

Merk og mikilvæg saga

Skólinn á sér merka sögu. Vissuð þið til dæmis að Verkakvennafélagið Framtíðin hóf starfsemi skólans árið 1935? Eða að skólanum var lokað tímabundið vegna yfirvofandi hættu á loftárásum Nasista í seinni heimsstyrjöldinni? Saga skólans er löng og fjölmargir Hafnfirðingar eiga hlýjar minningar héðan. Starfsemin hófst í húsnæði gamla barnaskólans við Suðurgöt en þar var einnig Barnaskóli Hafnarfjarðar sem seinna varð Lækjarskóli. Veturinn 1948-49 var skólinn fluttur í nýtt húsnæði við Hörðuvelli og var þar til ársins 2002 þegar skólinn flutti í núverandi húsnæði.

Til hamingju með afmælið.

Ábendingagátt