Handverk Karla í skúrnum vekur athygli

Fréttir Jólabærinn

Félagsskapur Karla í skúrnum hefur vaxið og dafnað allt frá því hann var stofnaður 2018 – fyrst hér í Hafnarfirði. Handverk þeirra hefur vakið athygli í Jólaþorpinu. Bæjarstjóri kíkti í heimsókn.

Handverk sem vekur athygli

Hreindýrin í Jólaþorpi Hafnarfjarðar hafa vakið mikla athygli. Eftirspurnin er mikil og er í skoðun hvort þau verði seld í Jólaþorpinu að ári. Hreindýrin eru hönnuð og smíðuð af Körlum í skúrnum hér í Hafnarfirði.

„Já, það er í skoðun og þá líklegast minni en þau sem þar eru,“ segir Hallgrímur Guðmundsson, meðstjórnandi og í húsnefnd Karla í skúrnum; félagsskaparins sem á rætur og fyrirmynd í Ástralíu en var fyrst sett á laggirnar, fyrir tilstuðlan Rauða krossins – fyrst hér í Hafnarfirði árið 2018.

„Rauði krossinn studdi okkur í byrjun en nú erum við sjálfstæðir og engum háðir,“ segir Hallgrímur. „Hugsunin er sú að ná mönnum úr sófanum, frá sjónvarpinu, enda þekkt að konur eiga auðveldara með að koma saman, eru í saumaklúbbum en við karlar eru einstrengnari. Þetta er því leið til að efla félagslíf karla og tengsl,“ segir hann. „Aðalmálið er að koma saman og hittast.“

Félagsskapurinn hefur vaxið. Nú er svo komið að félagsmenn eru um 80. Þeir greiða 2500 krónur á mánuði fyrir að tilheyra félagsskapnum. Opið er milli kl. 10-12 þriðjudaga og fimmtudaga.

„Þeir sem vilja fá lykil að skúrnum og geta komið hvenær sem er. Við erum hér alla virka daga,“ segir Hallgrímur og að ríflega tuttugu komi á dag. Vináttubönd hafi myndast í skúrnum.

„Allir átján ára og eldri eru gjaldgengir félagar en aðallega eru þetta eldri borgarar. Komið hefur fyrir að menn hafi komið í einhvern tíma, jafnvel vegna lasleika, en farið svo aftur á vinnumarkað.“

Hallgrímur segir suma aðeins koma á kaffistofuna til að ræða málin, aðrir séu á kafi í vinnu. „Hér er mikið um trérennsli, tálgun og svona. Svo er hér silfursmíði og við höldum námskeið í tálgun, rennsli og leðuriðnaði. Gerum allt mögulegt, já, við gerum það sem menn óska eftir og það sem menn hafa áhuga á.“

Valdimar Víðisson bæjarstjóri kíkti í heimsókn í skúrinn nú í morgun. Hallgrímur segir heimsóknina hafa verið mjög góða. Hann hafi á dögunum hitt bæjartsjórann þar sem hann heyrði að endurnýja ætti hefilbekki í Lækjarskjóla.

„Ég sagði honum að við hefðum áhuga á þeim gömlu. Hann fór beint í það og sagði svo að við gætum fengið þá alla. Við erum mjög ánægðir með það.“

Já, svona höfum við áhrif hvert á annað í samfélaginu okkar.

Ábendingagátt