Hreinsun atvinnusvæða 18.-28. september

Fréttir

Við skorum á stjórnendur og starfsfólk fyrirtækja í Hafnarfirði að taka til hendinni við hreinsun innan lóða og bjóðum upp á gáma fyrir timbur og járn á þremur stöðum í bænum.

Okkur er öllum annt um umhverfi okkar og að ásýnd Hafnarfjarðarbæjar sé góð. Nú í september skorum við sérstaklega á stjórnendur og starfsfólk fyrirtækja í Hafnarfirði að taka til hendinni við hreinsun innan lóða og bjóðum upp á gáma fyrir timbur og járn á þremur stöðum í bænum.

Nýtum okkur þjónustuna – gámar fyrir timbur og járn við Bæjarhraun, bátaskýlin við Lónsbraut og við Gjáhellu – sjá kort með staðsetningu hér

Athugið að gámarnir eru aðeins fyrir timbur og járn – aðrir úrgangsflokkar fara í annan farveg, t.d. á endurvinnslustöð Sorpu við Breiðhellu

Á fundi sínum þann 25. ágúst 2020 samþykkti skipulags- og byggingaráð að hvetja forsvarsmenn fyrirtækja og lóðarhafa á iðnaðarsvæðum bæjarins að taka virkan þátt í umhverfisátaki sem fer fram dagana 18.-28. september. Hreinsunarátak á iðnaðar- og athafnasvæðum er áskorun til lóðarhafa og atvinnurekenda um að hreinsa allt það sem getur valdið mengun, lýti eða ónæði á umhverfinu.

Það er hagur allra að umhverfið sé aðlaðandi, að við göngum öll vel um bæinn og náttúruna, iðnaðar- og athafnasvæðin eru engin undantekning frá því. Fyrirtæki eru því sérstaklega hvött til að nýta sér þessa þjónustu bæjarins því hrein ásýnd fyrirtækja hefur áhrif á upplifun viðskiptavina og viðskipti.

Flokkun í fyrirtækjum og stofnunum

Mikilvægi flokkunar í fyrirtækjum og stofnunum verður til umfjöllunar á námskeiði fyrir aðildarfyrirtæki Markaðsstofu Hafnarfjarðar þriðjudaginn 6. október kl. 9:00-10:30 í sal Íshesta.

Líf Lárusdóttir markaðsstjóri hjá Terra fer yfir mikilvægi þess að fyrirtæki flokki sinn úrgang og gefur ráð um hvernig standa megi að flokkun svo að allt starfsfólk fyrirtækja séu að spila eftir sömu leikreglum. Farið yfir hvað verði um efnin sem eru flokkuð og hvað ber að hafa í huga svo að flokkun skili sem mestum árangri. Líf kemur með sett sem inniheldur algengustu umbúðir og helstu vafaatriði þegar kemur að flokkum. Þá mun Terra bjóða fyrirtækjum í fyrirtækjaheimsókn þann 14. október.

Nánari upplýsingar um viðburðina og upplýsingar um skráningu eru á vef Markaðsstofu Hafnarfjarðar msh.is.

Ábendingagátt