Hreyfing bætir lífsgæði fólks með geðraskanir

Fréttir

Það er óhætt að segja að starfsfólk líkamsræktarstöðvarinnar Kvennastyrks í hjarta Hafnarfjarðar færi nálgun stöðvarinnar um þjálfun, virðingu, metnað og samheldni út fyrir veggi stöðvarinnar. Einu sinni í viku sækir Viðar Bjarnason nágranna stöðvarinnar heim og býður upp á ókeypis og aðlagaða þjálfun fyrir íbúa.

Íbúar hvattir til að hreyfa sig í takti við getu og ánægju

Það er óhætt að segja að starfsfólk líkamsræktarstöðvarinnar Kvennastyrks í hjarta Hafnarfjarðar færi nálgun stöðvarinnar um þjálfun, virðingu, metnað og samheldni út fyrir veggi stöðvarinnar. Einu sinni í viku sækir Viðar Bjarnason, annar tveggja eigenda, nágranna stöðvarinnar í Straumhvörfum að Hverfisgötu 29 heim og býður upp á ókeypis og aðlagaða þjálfun fyrir íbúa í húsinu. Straumhvörf hýsir sjálfstæða búsetu fyrir geðfatlaðra og hefur hópurinn komið sér vel fyrir í bílakjallaranum í húsinu og hittist þar alla miðvikudaga í 45 mínútur í senn með heilsueflingu í huga. Átta íbúar hafa að jafnaði tekið þátt í þjálfuninni og það í takti við eigin getu og löngun.

Nágrannakærleikurinn – hollt fyrir sálina og andann

Framtakið varð að veruleika eftir að Viðar og Rakel Róbertsdóttir forstöðumaður Straumhvarfa ræddu saman um mikilvægi hreyfingar fyrir andlega og líkamlega heilsu allra og þá ekki síst þeirra sem eiga fyrir við andleg veikindi að stríða. Rakel er þroskaþjálfi, fjölskyldufræðingur og klínískur dáleiðari og hefur starfað sem forstöðumaður í sjálfstæðri búsetu geðfatlaðra hjá Hafnarfjarðarbæ í 14 ár. Reynsla Rakelar er víðtæk en snýr í grunninn fyrst og fremst að fólki og þeirra vellíðan og hvernig hægt sé að auka lífsgæði með samtali og styrkingu tengsla. Viðar er einkaþjálfari og reynslubolti á sviði þjálfunar og hefur í þjálfun sinni lagt upp með að aðlaga æfingar að þörfum hvers og hvetur fólk áfram á uppbyggjandi og leiðbeinandi hátt. Þau Viðar og Rakel eiga það meðal annars sameiginlegt að trúa á mátt hreyfingar og hvers kyns heilsueflingar og hafa hér hrint frábærri hugmynd í framkvæmd íbúum í Straumhvörfum til hagsbóta. Máttur einstaklingsframtaksins er mikill eins og kristallast vel í þessu verkefni og fagnar Heilsubærinn Hafnarfjörður framtakinu heilshugar.

Kvennastyrkur – heilsuefling á eigin forsendum

Kvennastyrkur er líkamsræktarstöð í hjarta Hafnarfjarðar sem er sérstaklega hugsuð fyrir konur á öllum aldri. Konum stendur þar til boða hvetjandi, fagleg og vönduð þjálfun, fjölbreyttir hópatímar og vel útbúin rækt. Nálgun Kvennastyrks gengur út á þjálfun, virðingu, metnað og samheldni. Þannig eru þátttakendur meðal annars hvattir til að bera virðingu fyrir hvor annarri, sögu og reynslu hverrar og einnar og að það sé engin ein rétt leið í lífinu. Allir séu einstakir.

Ábendingagátt