Hreystibraut opnuð á Hörðuvöllum

Fréttir

Ný hreystibraut hefur verið sett upp á Hörðuvöllum og er brautin, sem hefur verið að byggjast upp jafnt og þétt síðustu daga og vikur, nú tilbúin fyrir hvers kyns æfingar og keppni. Allar þrautirnar eru til þess fallnar að ýta undir eflingu á úthaldi, styrk og fimi. 

Ný hreystibraut hefur verið sett upp á Hörðuvöllum og er brautin, sem hefur verið að byggjast upp jafnt og þétt síðustu daga og vikur, nú tilbúin fyrir hvers kyns æfingar og keppni. Í brautinni eru 11 stöðvar að meðtöldu rásmarki og endamarki og má þar finna netturn, röraþraut, apastiga, dekkjaþraut, kaðalturn, sippuþraut, steinaþraut, sekkjaþraut og skriðþraut. Allar þessar þrautir eru til þess fallnar að ýta undir eflingu á úthaldi, styrk og fimi og kalla m.a. á klifur, hlaup og hopp. Aldurstakmark á braut eru 8 ár og þurfa yngri börn að vera í fylgd með fullorðnum.

IMG_3979

Enn meiri kraftur og metnaður settur í fjölbreytta hreyfingu

Grunnskólakeppnin Skólahreysti fer fram á keppnisbraut eins og þeirri sem nú hefur risið á þessum fjölfarna stað í miðbæ Hafnarfjarðar, með útsýni yfir Hamarskotslæk alla leið niður að Hafnarfjarðarhöfn. Staðsetningin er í nágrenni þriggja skólahverfa og nærri fjölförnum hjóla- og göngustígum. Það er von Heilsubæjarins Hafnarfjarðar að aðsókn í brautina verði góð og að hún verði nýtt hvort sem heldur til hefðbundinna æfinga íbúa og vina Hafnarfjarðar á öllum aldri og til undirbúnings og æfinga fyrir keppni eins og Skólahreysti. Heilsubærinn vill með þessu framtaki setja enn meiri kraft og metnað í fjölbreytta hreyfingu og útvega þannig m.a. grunnskólum sveitarfélagsins vettvang til æfinga fyrir Skólahreysti. Nokkrir leik- og grunnskólar í Hafnarfirði eru þegar komnir í hóp heilsueflandi skóla hjá Embætti Landlæknis og fleiri að undirbúa þá vegferð.

Nemendur í grunnskólum Hafnarfjarðar hafa, líkt og nemendur í öðrum grunnskólum landsins, tekið þátt í Skólahreysti, liðakeppni á milli grunnskóla og það með góðum árangri. Mikil eftirspurn hefur því verið meðal hafnfirskra ungmenna að hafa aðgang að hreystibraut til þess að geta æft sig í réttu umhverfi. 

Minni hreystibraut er staðsett við Skarðshlíðarskóla.

Ábendingagátt