Hringinn í kringum landið í nóvember

Fréttir

Starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar hefur sett sér það markmið að ganga hringinn í kringum landið í nóvember.  Daglega er vegalengdin tekin saman til að sjá hve hópurinn er kominn langt áleiðis. 779 kílómetrar hafa verið lagðir nú þegar. 

Starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar hefur sett sér það markmið að ganga hringinn í kringum landið í nóvember. Haldið er utan um þátttöku í verkefninu á innri samskiptamiðli starfsfólks en starfsfólk gengur sjálft eða í litlum hópum og sendir inn upplýsingar um gengna kílómetra. Daglega er vegalengdin tekin saman til að sjá hve hópurinn er kominn langt áleiðis.

Hópurinn er „staddur“ í Berufirði í Múlaþingi 

Rúmlega hundrað eru skráðir til þátttöku og eftir fyrstu vikuna er hringvegurinn meira en hálfnaður. Gengnir hafa verið samtals 779 km og hópurinn er því „staddur“ í Berufirði í Múlaþingi.

Halfnud

Eftir fyrstu vikuna er leiðin meira en hálfnuð og gengnir hafa verið samtals 779 km. Hópurinn er því „staddur“ í Berufirði í Múlaþingi ca. á þeim stað þar sem síðasti malarkaflinn á þjóðvegi 1 var malbikaður 2019 með útsýni yfir Búlandstind og Djúpivogur handan við hornið.

Ferðalagið hefur gengið c.a. svona til þessa: 

  • Miðvikudagurinn 4. nóvember. Hópurinn komst að Hafnarfjalli og hafði þá lagt 65KM að baki.
  • Fimmtudagurinn 5. nóvember. Hópurinn nokkurn veginn kominn á áætlun og rétt ókominn í Víðigerði. Hafði þá samtals lagt 209KM að baki.
  • Föstudagurinn 6. nóvember. Þátttakan tók kipp og hópurinn staddur við Stórutjarnarskóla.  Stytti sér óvart leið í gegnum Vaðlaheiðargöngin enda spenntur fyrir nýju göngunum en þar má náttúrulega alls ekki ganga né hjóla! Styttingin verður unnin upp síðar.  
  • Laugardagurinn 7. nóvember. Hópurinn kominn langleiðina að Egilsstöðum og var staddur við fossinn Ytri-Rjúkanda sem er einn af perlum Fljótsdalshéraðs við hringveginn á Jökuldal og er vel sýnilegur af þjóðveginum.

Fjölmargir hafa deilt myndum af áhugaverðum stöðum og gönguleiðum með samstarfsfólki sínu og meðfylgjandi eru nokkrar myndir sem starfsfólk hefur tekið á ferðum sínum.

Dogg

Guðbjörg Dögg Gunnarsdóttir skólastjóri Lækjarskóla gekk um Kársnesið.

Bryndis

Bryndís Halldórsdóttir skóla- og frístundaliði í Víðistaðaskóla gekk um Elliðaárdalinn.

Andri

Andri Ómarsson verkefnastjóri í menningarmálum ætlaði á Helgafell en endaði í Búrfellsgjá í Garðabæ.

Anna-Sigurborg

Anna Sigurborg Harðardóttir leikskólastjóri gekk fram hjá þessu fallega verki eftir Ingvar Björn við Víðistaðatún .

Asta-Eyjolfsdottir

Ásta Eyjólfsdóttir skóla- og frístundaliði í Setbergsskóla rakst á þessi sumarblóm á göngu sinni sem lifa þó svo það sé kominn nóvember.

Ardis

Árdís Ármannsdóttir samskiptastjóri tók daginn snemma og gekk á snjóhvíta Esjuna

Hringurinn í kringum landið heldur áfram og alveg spurning hvort Vestfirðirnir verði mögulega teknir líka núna í nóvember. Það stefnir allt í það! 

Ábendingagátt