Hugmyndir að móttöku nemenda í fjölþjóðlegu skólasamfélagi

Fréttir

Nemendur í 2. bekk í Hraunvallaskóla hafa síðustu vikur unnið að verkefni tengdu lýðræði og komu nemenda af erlendum uppruna í skólann. 44 nemendur ásamt kennurum heimsóttu Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra í morgun og afhentu henni fjölbreyttar hugmyndir um móttöku nýrra nemenda frá nemendum og foreldrum þeirra.

Heimsóttu bæjarstjóra með fjölbreyttar hugmyndir um móttöku nemenda af erlendum uppruna

Nemendur í 2. bekk í Hraunvallaskóla hafa síðustu vikur unnið að verkefni tengdu lýðræði og komu nemenda af erlendum uppruna í skólann. 44 nemendur ásamt kennurum heimsóttu Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra í morgun og afhentu henni hugmyndir frá nemendum og foreldrum þeirra um það hvað hægt er að gera til að taka vel á móti nýjum nemendum og bjóða velkomna á nýjar slóðir og í nýtt samfélag. Þetta verkefni er auk þess tengt Erasmus vinnu sem Hraunvallaskóli tekur þátt í með fjórum öðrum löndum.

21 tungumál og 152 nemendur af erlendum uppruna í Hraunvallaskóla

Kennarar munu kynna verkefnið í Póllandi í lok apríl fyrir kennurum skóla frá fjórum löndum þ.e. Póllandi, Spáni, Danmörku og Finnlandi sem verkefnið hefur verið unnið í samstarfi við. Í öllum Hraunvallaskóla eru 152 nemendur af erlendum uppruna sem tala 21 tungumál. Það eru 26% af nemendum skólans. Í 2. bekk Hraunvallaskóla eru 19 nemendur af 44 af erlendum uppruna og 12 tungumál töluð í bekknum. Mikil stemning er fyrir því að halda fjölmenningarsamkomu í skólanum til að sýna fjölbreytileikann í skólasamfélaginu.

Dæmi um tillögur frá nemendum og foreldrum í fallegri bók til bæjarstjóra:

  • Hafa einn dag í skólanum þar sem íslensku krakkarnir fræða nýju krakkana um Ísland; hvað krakkar á Íslandi gera eftir skóla, hvað borðað er, hvað hægt er að æfa…
  • Gefa þeim íslenskan mat að smakka
  • Kenna þeim um íslenska menningu og læra um þeirra menningu
  • Hafa þemadaga þar sem börnin geta kynnt löndin sem þau koma frá; menningu, venjur, leiki, íþróttir, frægt íþróttafólk, etc
  • Það er mikilvægt að þau sem fyrir eru kynnist menningu þeirra sem koma frá öðrum löndum t.d. er hægt að hafa mat frá löndunum í hádegismat í skólanum
  • Teikna löndin okkar
  • Gera verkefni um að við séum öll jafningjar
  • Hafa sameiginlega matarhátíð með fleiri skólum
  • Hafa tvo vini í bekknum til að hjálpa og leika með nýjum nemendum
  • Sýna þeim skólann
  • Tala við þau; hver er þeirra uppáhaldsmatur, hvaða íþróttir æfa þau og hvaða systkini þau eiga
  • Vera dugleg/ur að spyrja þau um landið sem þau bjuggu í áður
  • Alltaf bjóða þeim í leik og ekki skilja útundan
  • Brosa til þeirra og bera virðingu, vera þolinmóð, kurteis og sýna vináttu
  • Vera hlý og góð og samþykkja þau eins og þau eru
  • Alls ekki gera grín að þeim sem eru öðruvísi
  • Við getum boðið þeim vináttu, samvinnu og ábyrgð
  • Hjálpa þeim að læra íslensku
  • Sýna þeim þolinmæði þegar þau eru að læra tungumálið
  • Gefa þeim blað með fullt af íslenskum orðum til að læra
  • Merkja hlutina í skólanum svo þau geti lesið og lært nöfn hlutanna
  • Hafa myndir um tilfinningar og kenna þeim að tjá tilfinningar sínar
  • Skrifa orðið vinur á öðrum tungumálum (tungumál nemenda sem eru í bekknum)
  • Ekki stríða
  • Vera til staðar
  • Hjálpa þeim að eignast vini
  • Búa til vinahópa innan bekkjarins sem hittast eftir skóla
  • Bjóða þeim heim að leika
  • Bjóða þeim að koma og spila saman
  • Hjálpa þeim við heimavinnu
  • Getum boðið þeim í kvöldmat
  • Bjóða þeim á íþróttaæfingar
  • Sýna þeim skemmtilega staði í Hafnarfirði
  • Koma með fræðilegt efni á tungumáli þeirra ef það er til
Ábendingagátt