Hugum að geðheilbrigði!

Fréttir

Samtökin Hugrún geðfræðsla fengu í dag, á afmælisdegi Flensborgarskóla.  Hugrún stendur fyrir fræðslu um geðheilbrigði og geðraskanir fyrir ungmenni um land allt.

Samtökin Hugrún geðfræðsla fengu í dag, á
afmælisdegi Flensborgarskóla, afhentan styrk að upphæð 450.000.- kr. Allur
ágóði Flensborgarhlaupsins, sem haldið var 18. september sl, fer til Hugrúnar
þetta árið auk þess sem Hafnarfjarðarbær styrkir verkefnið. Hugrún geðfræðsla
stendur fyrir fræðslu um geðheilbrigði og geðraskanir fyrir ungmenni um land
allt.

Samtökin Hugrún geðfræðsla voru stofnuð vorið 2016 af
nemendum í hjúkrunarfræði, læknisfræði og sálfræði við Háskóla Íslands. Síðan
þá hafa fjölmargir aðilar komið að starfi félagsins úr ýmsum greinum háskólans
og víðar. Félagið hefur það að markmiði að fræða ungt fólk um geðheilbrigði,
geðsjúkdóma og úrræði, sem og að auka samfélagslega vitund. Á meðal verkefna
sem félagið hefur staðið að, auk fræðslu í framhaldsskólum, eru opin
fræðslukvöld í Háskóla Íslands fyrir almenning, greinaskriftaátak í tilefni
alþjóðlega geðheilbrigðisdagsins 10. október, fræðsla og kynningar í
félagsmiðstöðvum, fræðsla fyrir foreldra- og nemendafélög og fleiri. Samtökin
halda úti Facebook hópnum Geðfræðsla. Hver sem er getur sótt um aðgang að
hópnum en hann er ætlaður öllum þeim sem hafa áhuga á geðfræðslu og
vitundarvakningu um geðheilbrigði og geðsjúkdóma. Háskólanemar geta þar að auki
gerst sjálfboðaliðar fyrir Hugrúnu óháð námsbraut og á hverju hausti stendur
Hugrún fyrir fræðslukvöldum og fræðsluferð þar sem þjálfun nýrra fræðara fer
fram. Hlutverk fræðara er að fara í grunn- og framhaldsskóla með fræðslu
Hugrúnar og taka almennt þátt í starfsemi félagsins.

Afmælishátíð í
Flensborg

Nemendur og starfsmenn Flensborgarskóla halda í dag upp á
afmæli skólans með fjölbreyttri dagskrá, vinnustofum og skemmtilegum heimsóknum
auk sem áhersla verður lögð á forvarnir alla vikuna. Skólinn var settur í
fyrsta sinn 1. október 1882. Forseti Íslands, bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar og
fleiri góðir gestir sóttu afmælishátíð með nemendum og starfsfólki skólans í
morgunsárið. Meðal umræðuefnis gesta og fyrirlesara var jafnrétti í sögulegu samhengi,
Flensborg og Hafnarfjarðarbær sem heilsueflandi skóli og samfélag, karlmennska
og femínismi. Flensborgarskóli var t.a.m. fyrsti framhaldsskólinn á landinu til
að innleiða hugmyndafræði Heilsueflandi framhaldsskóla og Hafnarfjarðarbær
orðið heilsueflandi samfélag í samstarfi við Landlæknisembættið. 

Til hamingju með afmælið Flensborgarskóli!

Ábendingagátt