Hundruð á alþjóðlega Star Wars-deginum

Fréttir

Bókasafn Hafnarfjarðar iðaði af lífi um helgina í tilefni að alþjóðlegum Star Wars-deginum. Bókasafnið er sannkallað heimili ævintýranna. Þar verður enn stærri hátíð, Heimar og himingeimar, haldin í annað sinn í haust.

501. herdeildin á bókasafninu

Yfir 500 gestir voru á Bókasafni Hafnarfjarðar þegar 501. herdeildin mætti í heimsókn á laugardag. Tilefnið var alþjóðlegur Star Wars-dagurinn 4. maí. Gleðin var ráðandi og gaman að fá gesti úr stjörnuþokunni langt, langt í burtu!

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem herdeildin hreiðrar um sig á bókasafninu. Þúsundir mættu einmitt þegar hún var á hátíðinni Heimum og himingeimum sem haldin var í fyrsta skipti á bókasafninu í byrjun september í fyrra. Sú hátíð sló svo í gegn að hún verður endurtekin í haust.

Búningasmiðja 17. maí

Það er gaman að leika sér og við verðum aldrei of gömul til þess. Nú 17. maí er hægt að byrja undirbúninginn fyrir haustið. Mánaðarlegar Kit og Cosplay-smiðjur eru fram að hátíðinni.

Saumavélar og allt sem þarf á staðnum. Aðstoð við snið og almennileg borð til efnisskurðar, hamingja og félagsskapur fyrir alla sem ætla að vera fáránlega flott á Heimum og Himingeimum í ágúst!

Já, bókasafnið okkar er heimili ævintýraheimanna.

Ábendingagátt