Hús og garður tækifæranna í Hellisgerði

Fréttir

Í fallegum og nýuppgerðum lystigarði Hafnfirðinga í miðbæ Hafnarfjarðar leynast tækifæri fyrir einstaklinga, fyrirtæki eða hópa sem vilja búa til rekstur og skapa upplifun og ævintýri á einstökum stað. Eina skilyrðið er að hugmyndir að starfsemin auki aðdráttarafl, áhuga og aðsókn í garðinn. Hafnarfjarðarbær leitar eftir samtali við alla áhugasama um mögulegan rekstur Oddrúnarbæjar og tækifærin í garðinum allt árið um kring.

Tækifæri fyrir rekstur, upplifun og ævintýri á einstökum stað

Í fallegum og nýuppgerðum lystigarði Hafnfirðinga í miðbæ Hafnarfjarðar leynast tækifæri fyrir einstaklinga, fyrirtæki eða hópa sem vilja búa til rekstur og skapa upplifun og ævintýri á einstökum stað. Eina skilyrðið er að hugmyndir að starfsemin auki aðdráttarafl, áhuga og aðsókn í garðinn. Hafnarfjarðarbær leitar eftir samtali við alla áhugasama um mögulegan rekstur Oddrúnarbæjar og tækifærin í garðinum allt árið um kring.

Lýsing á tækifæri

Í þessum 100 ára lystigarði Hafnfirðinga í Hellisgerði má m.a. finna Oddrúnarbæ sem er lítið, gamalt og heillandi hús með salernisaðstöðu og aðstöðu til reksturs. Oddrúnarbær er um 20 fermetrar að stærð og byggt árið 1905. Útisvið er við húsið auk tveggja nýrra gróðurhúsa og áhorfendapalla sem mynda fallega umgjörð í hjarta garðsins. Falleg tjörn er fyrir botni garðsins með styttunni; Yngsta fiskimanninum. Á sumrinu er tjörnin nýtt sem vaðtjörn og á köldum vetrardögum undir skauta. Víða um garðinn hafa verið útbúin skemmtileg innskot og aðstaða til hvíldar, klifurs og upplifunar. Hellisgerði er eitt af helstu kennileitum Hafnarfjarðar og hefur hin síðustu ár stimplað sig vel inn í jólahefðir Hafnfirðinga og vina Hafnarfjarðar. Á aðventunni umbreytist garðurinn í ævintýraveröld með ljósadýrð og þúsundir gesta nota tækifærið til að upplifa og njóta á sínum eigin forsendum. Á öðrum árstímum er garðurinn mikið nýttur til útivistar, viðburða, lautarferða og ævintýra auk þess sem fyrirtæki og hópar hafa nýtt aðstöðuna undir fjölbreyttar samkomur.

Deildu draumum þínum með okkur

Hafnarfjarðarbær óskar eftir hugmyndum sem styrkja og auka enn frekar mannlífið í Hellisgerði og þannig umferð íslenskra jafnt sem erlendra ferðamanna um garðinn. Hugmynd skal fylgja greinargerð sem útlistar hugmynd að starfsemi, sérstöðu út frá vöru og/eða þjónustu ásamt upplýsingum um bakgrunn, færni og reynslu þess sem áhugasamur er um tækifærið.   Sérstök athygli er vakin á því að um er að ræða markaðskönnun sem er á engan hátt skuldbindandi fyrir aðila samtals.

Hugmyndaskil í síðasta lagi 12. ágúst 

Tekið er á móti hugmyndum að starfsemi, rekstri og umgjörð til og með 12. ágúst í gegnum netfangið: menning@hafnarfjordur.is. Hægt er óska eftir ítarlegri upplýsingum og bóka skoðun á fasteign hjá þjónustuveri Hafnarfjarðarbæjar í gegnum netfangið: hafnarfjordur@hafnarfjordur.is eða síma: 585-5500.

Ábendingagátt