Hvaleyrarskóli í alþjóðlegri skákkeppni

Fréttir

Lið Hvaleyrarskóla í skák tók í byrjun mánaðarins þátt í fyrstu alþjóðlegu keppninni sinni. Þau fara næst á Norðurlandamót.

Í alþjóðlegri keppni

Lið Hvaleyrarskóla keppti á heimsmeistaramóti skólasveita í byrjun mánaðarins. Mótið fór fram í Washington D.C. í Bandaríkjunum. Þetta var fyrsta alþjóðlega mótið þeirra en ekki það síðasta, því þau stefna á Norðurlandamót í Helsinki um miðjan mánuðinn.

„Ég er mjög stoltur af flottum hópi,“ segir Kristinn Guðlaugsson skólastjóri Hvaleyrarskóla.

Fyrir keppni var hópurinn talinn sá 46. sterkasti á mótinu og urðu þau í 45. sæti. Þau höfðu fengið þjálfun formanns Skáksambandsins fyrir ferðina. Indland sigraði mótið nokkuð örugglega, Kasakstan í öðru sæti og Bandaríkin í því þriðja.

Liðið skipa:

  • Emilía Klara Tómasdóttir
  • Katrín Ósk Tómasdóttir
  • Kristófer Árni Egilsson
  • Milosz Úlfur Olszewski
  • Tristan Nash Alguno Openia

Mikill skákáhugi hefur hreiðrað um sig í Hvaleyrarskóla, eins og víða í skólum Hafnarfjarðarbæjar.

„Hér er skákborð á göngum og nemendur tefla. Skákin hefur verið endurvakin hér í skólanum. Fyrir þremur, fjórum árum tókum við hana upp aftur eftir rólegt tímabil og vorum á undan skákbylgjunni,“ lýsir Kristinn.

„Já, þau stóðu sig vel úti og hoppuðu upp um eitt sæti í frumraun sinni í keppni erlendis. Þetta er frábær reynsla fyrir þau öll,“ segir Kristinn.

  • Lestu lýsingu skáksambandsins á skákunum hér.

Innilega til lukku með reynsluna og gangi ykkur sem allra best á Norðurlandamótinu.

Ábendingagátt