Hvaleyrarskóli keppti á Norðurlandamótinu í skák

Barnvænt sveitarfélag Fréttir

Sveit Hvaleyrarskóla fékk mikilvæga reynslu á Norðurlandamótinu sem haldið var í Helsinki dagana 12.-15. september.

Skákáhuginn mikill í Hvaleyrarskóla

„Lærdómsríkt,“ segir Kristinn Guðlaugsson skólastjóri Hvaleyrarskóla um upplifun sveitar skólans sem keppti á Norðurlandamóti grunnskóla, dagana 12. – 15. september. Mótið var haldið í Helsinki í Finnlandi. Keppt var í tveimur flokkum og var Hvaleyrarskóli fulltrúi Íslands í eldri flokki, 8.- 10. bekkur. Rimaskóli keppti í yngri flokki, 5. – 7. bekkur.

Lið Hvaleyrarskóla var þannig skipað:

  1. borð : Tristan Nash Openia
  2. borð: Milosz Úlfur Olszewski
  3. borð: Kristófer Árni Egilsson
  4. borð: Katrín Ósk Tómasdóttir

Varam.        Emilía KlaraTómasdóttir

Liðstjóri var Ægir Magnússon og með í för var Björn Ívar Karlsson, skólastjóri Skákskóla Íslands. Hann hafði að mestu veg og vanda við skáklegan undirbúning liðsins.

„Sveit Hvaleyrarskóla var með yngsta meðalaldurinn í sínum flokki og  vitað mál að við ramman reip yrði að draga í viðureignum við hin Norðurlöndin. Þannig fór að Svíþjóð, Danmörk og Noregur röðuðu sér í efstu sætin en Ísland og Finnland voru nokkurn veginn á pari þar á eftir,“ segir Kristinn.

Liðsmenn Hvaleyrarskóla hafi oft og tíðum náð ágætum stöðum en vænlegar stöður hafi orðið fórnarlömb fljótfærni. Efnilegu skákmenn Hvaleyrarskóla munu læra af mótinu.

„Björn Ívar skákstjóri fór yfir hverja viðureign með krökkunum, hvað var gott og annað sem betur mátti fara. Mótið var því mjög lærdómsríkt, en ekki síður gaman að fá að spreyta sig gegn krökkum frá hinum Norðurlöndunum,“ segir hann.

Rimaskóli lenti í 3. sæti í sínum flokki. Liðstjóri þeirra var Helgi Árnason, sem unnið hefur frábært starf með sínum krökkum í Rimaskóla. „Aðstaða á mótsstað var hin besta og allir krakkar úr báðum skólum undu glaðir við sitt.“

Ábendingagátt