Hvetja Hafnfirðinga til að gefa föt og hluti

Fréttir

GETA – hjálparsamtök safna nú fatnaði og hlutum og hvetja Hafnfirðinga til að skoða hvað leynist í sínum fórum og gæti hjálpað flóttafólki. Haldinn verður risamarkaður fyrir flóttafólkið laugardaginn 26. október 2024 í safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju.

Grisjum og gerum góðverk!

GETA – hjálparsamtök hvetja Hafnfirðinga og aðra til þess að gefa fatnað og hluti á risamarkað sem haldinn verður á laugardag í safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju fyrir flóttafólk.

„Söfnunin hefst annað kvöld, fimmtudag kl. 19-21 og svo söfnum við fötum og hlutum frá kl. 12-21 allan föstudag,“ segir Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir, framkvæmdastjóri GETA  –  hjálparsamtaka. En hvað vantar helst?

Útiföt fyrir börnin koma sér vel

„Alltaf vantar úlpur, snjógalla og regngalla. Oft vantar lítil rafmagnstæki, hraðsuðukatla, brauðristar, litla blandara,“ segir hún.

„Kuldaskór fyrir börn og stígvél. Leikföng. Við tökum á móti öllu en þetta vantar mest,“ segir Ingunn og áréttar að mikilvægt sé að hlutirnir séu hreinir og heilir. „Ekki koma með götótt eða slitið. Fólk er yfirleitt ekki í aðstöðu til að gera við hluti. Best er að hugsa eins og þú sért að gefa vini,“ segir hún.

Búast við fjölda flóttafólks á markaðinn

Ingunn á von á miklum fjölda flóttafólks á markaðinn á laugardag. „Það komu 400 í fyrra.“ Um 30 sjálfboðaliðar verði á laugardaginn. „Þetta er stórt átak.“ Þetta er í þriðja sinn sem GETA – hjálparsamtök standa fyrir þessum góðgerðarviðburði sem hefur reynst gríðarlega mikilvæg leið til að koma fatnaði og hlutum frá nærsamfélaginu beint í hendur flóttafólks. Í tilkynningu frá GETA – hjálparsamtökum er sagt að fyrirkomulagið sé þannig að við komuna fái gestirnir ákveðinn fjölda miða sem þeir geti verslað fyrir.

„Þannig getur flóttafólk valið hluti og verslað það sem þau þurfa á að halda af virðingu og með reisn á sama tíma og þau finna fyrir hlýhug og stuðningi frá samfélaginu,“ segir þar.

  •  Hvar á að afhenda föt og hluti? Safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju, Strandgata 49, 220 Hafnarfjörður
  • Hvenær? Á morgun fimmtudag kl. 19-21 og frá kl. 12-21 föstudag
  • Hvernig fer söfnunin fram? Sjálfboðaliðar munu standa vaktina og taka á móti og flokka hluti. Bæði einstaklingar og fyrirtæki geta gefið hluti á markaðinn. Óskað er eftir vel með förnum notuðum hlutum jafnt sem nýjum.
  • Hvernig hlutum er safnað? Fatnaður og skór á allan aldur, snyrtivörur, lítil búsáhöld og rafmagnstæki, sem og aðrir smáir hlutir til heimilisins.
Ábendingagátt