Í bæjarfréttum er þetta helst

Fréttir

Fastur liður í hverjum mánuði að segja frá áhugaverðum verkefnum, áskorunum, hugmyndum, heimsóknum og fundum mánaðarins með það að markmiði að upplýsa bæjarbúa og aðra um gang mála.

Orð frá bæjarstjóra eftir mánaðarmót

Febrúarmánuður einkenndist af miklu lífi, áhugaverðum og skemmtilegum viðburðum og verkefnum og heimsóknum til skóla og fyrirtækja auk þess sem ég hef fengið fjölda heimsókna frá íbúum Hafnarfjarðar, frumkvöðlum og einstaklingum í leit að húsnæði og lóðum fyrir nýjan rekstur.  Ég fór í heimsókn til hvorutveggja Víðistaðakirkju og Ástjarnarkirkju í febrúar og hitti þar fyrir hóp einstaklinga sem starfa innan raða kirknanna eða koma að starfi þeirra með einum eða öðrum hætti. Fékk kynningu á starfsemi og verkefnum, þeirri þróun sem er að eiga sér stað og framtíðarsýn. Í upphafi mánaðar átti ég ásamt bæjarfulltrúum líka gott samtal við foreldra nemenda í Hraunvallaskóla þar sem húsnæðisþörf skólans og tillögur að framtíðarfyrirkomulagi skólastarfs í ört vaxandi hverfi voru meðal annars ræddar. Það hefur sýnt sig og sannað að virk þátttaka íbúa og annarra áhugasamra á málefnum bæjarfélagsins hefur hvetjandi áhrif á framkvæmd mála. Gott nýlegt dæmi um það eru framkvæmdir sem miða að því að bæta hljóðvist við tengivirki Landsnets í Hamranesi sem nú eru komnar á lokastig. Búið er að setja upp hljóðdempandi vegg sem á að draga úr nið og bæta hljóðvist á svæðinu til muna. Í þessar aðgerðir var ráðist eftir að íbúasamtök á Völlunum og bæjaryfirvöld í Hafnarfirði tóku sig saman og kröfðust aðgerða. Samvinna hlutaðeigandi er að skila árangri og verður það vonandi einnig raunin með mislæg gatnamót Krýsuvíkurvegar og Reykjanesbrautar. Sameiginlegur þrýstingur og tillögur að lausnum og leiðum eru vonandi að koma hreyfingu á fyrirætlanir ríkis og ráðuneytis í þá veru að framkvæmdir við mislæg gatnamót geti hafist strax næsta haust. Svona samvinnu og samtal vil ég sem bæjarstjóri tryggja, þannig vinnast hlutirnir best.

Líkt og í janúar hef ég sett saman yfirlit yfir hluta af þeim verkefnum sem við höfum verið að vinna að í mánuðinum:

Stjórnsýsla

  • Safnanótt í Hafnarfirði. Söfn í Hafnarfirði tóku virkan þátt í Safnanótt með fjölbreytti dagskrá og yfir 20 viðburðum
  • Styrkir bæjarráðs. Búið er að opna fyrir umsóknir um styrki til bæjarráðs Hafnarfjarðarbæjar í fyrri úthlutun ársins 2016. Umsóknarfrestur til 1. apríl – sótt er um í gegnum Mínar síður
  • Þemavika tónlistarskólanna. Þemavika var haldin í Tónlistarskólanum í upphafi mánaðar þar sem þemað var þjóðlöndin í Hafnarfirði. Samspilshópar léku tónlist frá flestum þeim þjóðlöndum sem margir íbúar í Hafnarfirði rekja sinn uppruna til
  • Faldbúningur maddömu Rannveigar. Annríki – þjóðbúningar og skart hefur síðustu tvö árin unnið að saumum á faldbúningi maddömu Rannveigar Sívertsen. Um vandasamt verk er að ræða sem byggir í grunninn á sögu og lýsingum úr dánarbúi Rannveigar. Tíu einstaklingar hafa gefið vinnu sína í verkefnið og er hér um að ræða ómetanlegt framlag til varðveislu á sögulegum minjum Hafnarfjarðarbæjar

Fræðslu- og frístundaþjónusta

  • Stóra upplestrarkeppnin. Nemendur í 7. bekk grunnskóla um land allt hafa á síðustu vikum og mánuðum æft sig í upplestri og framburði fyrir Stóru upplestrarkeppnina. Hátíðin í Hafnarfirði verður í Hafnarborg 8. mars og er þetta í 20 skipti sem hátíðin er haldin. Viðurkenningar verða veittar fyrir upplestur, smásögur og boðskort
  • Grunnskólahátíðin. Grunnskólahátíðin fór fram í upphafi febrúar og var sem fyrr okkur öllum, unglingunum okkar og verkefnum þeirra til mikils sóma. Nemendur úr öllum grunnskólum Hafnarfjarðar sýndu afrakstur alls konar listtengdrar vinnu auk þess að skemmta sér á dansleik um kvöldið þar sem sigurvegarar úr söngkeppni félagsmiðstöðva komu fram
  • Úthlutun afreksstyrkja. Stjórn Afreksmannasjóðs ÍBH úthlutaði í febrúar styrkjum til aðildarfélaga ÍBH vegna stórmóta á árinu 2015 í öllum aldursflokkum. Átján verkefni í fullorðinsflokkum og sextán verkefni í ungmennaflokkum fengu styrki
  • Bóka- og bíóhátíð barnanna. Ný menningarhátíð í Hafnarfirði var haldin um miðjan febrúar. Hátíðin hefur það að markmiði að hvetja börn á öllum aldri til virkrar þátttöku í uppbyggjandi og áhugaverðum læsis- og menningarverkefnum og –viðburðum. Í skólum bæjarins var mikil áhersla lögð á bækur, kvikmyndir, sögur, sögulestur og hlustun auk þess sem Bæjarbíó bauð á bíósýningar og söfn Hafnarfjarðar á vinnustofur, örsögukeppni, bókabýttimarkað barnanna og margt fleira. Í Setbergsskóla unnu nemendur í 2. bekk verkefni byggð á fyrstu bók Hafnfirðingsins Guðrúnar Helgadóttur um Jón Odd og Jón Bjarna
  • Lestrarsendiherrar Hafnarfjarðar. Fanndís Friðriksdóttir landsliðskona í fótbolta og Friðrik Dór Jónsson tónlistarmaður voru um miðbik mánaðar útnefnd lestrarsendiherrar Hafnarfjarðar. Titilinn bera þau út þetta ár og verða andlit lesturs og læsis fyrir hafnfirsk börn og þeim hvatning til framfara og árangurs á lestrarsviðinu
  • Dagur leikskólans. Hjá okkur eru allir dagar dagar leikskólans en einn dagur á ári er sérstaklega tileinkaður starfsemi leikskólanna og því mikilvæga starfi sem fram fer innan veggja þeirra. Í tilefni dagsins fór ég í heimsókn á Leikskólann Álfaberg og hitti þar fyrir hressa starfsmenn og börn sem sögðu mér frá starfseminni og þeim verkefnum sem í gangi eru hjá þeim
  • Spjaldtölvuverkefni leikskólanna – ný heimasíða. Leikskólar í Hafnarfirði héldu dag leikskólans m.a. hátíðlegan með formlegri opnun og kynningu á nýrri heimasíðu sem hefur að geyma myndbönd og upplýsingar um skapandi verkefni leikskólanna í Hafnarfirði. Markmið með síðunni er að vekja athygli á skapandi notkun spjaldtölva í skólastarfi á leikskólastigi
  • 900 starfsmenn fræðast á skipulagsdegi. 900 manna starfshópur leik- og grunnskóla í Hafnarfirði sótti sameiginlega fræðslu á skipulagsdegi skólanna 24. febrúar. Fræðslan tengdist læsisverkefni bæjarins, lestur er lífsins leikur, þar sem viðfangsefnið var undirstöðuþættir lestrar. Í kjölfar fræðslu hittust faghópar þvert á skóla til að deila reynslu sinni og þekkingu
  • Nafn á nýjan leikskóla. Leikskólinn við Bjarkavelli verður fjögurra deilda leikskóli fyrir 100 börn og er áætlað að leikskólinn opni næst haust. Í upphafi mánaðar leituðum við í hugmyndabrunn íbúa að nafni á nýja leikskólann. Rúmlega tuttugu tillögur bárust sem verið er að vinna úr þessa dagana. Nafn verður tilkynnt um leið og það liggur fyrir
  • Lægri inntökualdur á leikskóla. Frá og með hausti 2015 lækkaði inntökualdur hafnfirskra barna í leikskóla þannig að öll börn fædd í janúar og febrúar 2014 fengu leikskólapláss. Öllum börnum fæddum í mars 2014 var síðan úthlutað plássi frá og með 1. febrúar 2016. Í fyrsta skipti nú í ár eru börn tekin inn tvisvar yfir árið og vonandi verður það svo eftirleiðis
  • Tóbakskönnun. Könnun á því hvort unglingar geta keypt sígarettur eða tóbak á sölustöðum tóbaks í Hafnarfirði leiddi í ljós 9 af 14 sölustöðum seldum unglingum sígarettur og 6 af 14 sölustöðum tóbak. Niðurstöður kalla á aukið aðhald í þessum efnum þannig að tryggja megi að enginn hafnfirskur sölustaður selji ungmennum tóbak

Fjölskylduþjónusta

  • Hafðu áhrif á efri árin. Íbúafundur um málefni eldri borgarar var haldin í Hraunseli 11. febrúar. Í kringum 100 manns sóttu fundinn og tóku virkan þátt í umræðu og samtali um málefni sem ákveðin voru á staðnum af þátttakendum sjálfum. Meðal umræðuefnis á fundi voru búsetukostir, félagsstarf, umhverfi, kaup og kjör, heimaþjónusta, hjúkrunarheimili og samgöngur. Afrakstur hópavinnu skilar sér beint inn í vinnu á sviði öldrunarmála í Hafnarfirði og er þessa dagana verið að vinna úr niðurstöðum fundar
  • Miðstöð öldrunarþjónustu. Hafinn er undirbúningur að byggingu sextíu rýma hjúkrunarheimilis á Sólvangsreitnum. Hugmyndir bæjaryfirvalda í Hafnarfirði eru á þá leið að nýta Sólvang að hluta sem þjónustumiðstöð fyrir eldri borgara í sveitarfélaginu og að hluta sem rými fyrir tuttugu eldri borgara
  • Matur til eldri borgara. Fjöldi eldri borgara nýtir sér þann möguleika að fá heimsendan mat eða nýta sér þá þjónustu sem í boði er að Hjallabraut og Sólvangsvegi. Um síðustu áramót tók ISS við framleiðslu matar í kjölfar útboðs og hafa síðan þá borist ábendingar um gæði matar. Krafist var strax tafarlausra úrbóta af hendi ISS. Metnaður bæjarins liggur í því að tryggja að öll þjónusta til eldri borgara sé til fyrirmyndar
  • Heilsugæslan áfram í Hafnarfirði. Framkvæmdastjórn Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins ákvað í upphafi febrúar að sameina heimahjúkrun í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði án nokkurs samráðs við sveitarfélagið. Þessari ákvörðun hefur verið mótmælt af fjölskylduráði Hafnarfjarðar sem leggur ríka áherslu á samþættingu félagslegrar heimaþjónustu og heimahjúkrunar á forsendur notenda og að sveitafélagið sé í forgrunni sem veitandi þjónustu og samræmingaraðili. Hafnarfjarðarbær hefur óskað eftir að taka yfir heimahjúkrun og samþætta hana við heimaþjónustu.

Umhverfis- og skipulagsþjónusta

  • Skipulagsbreytingar. Tillaga að breytingum á skipulagi eru í auglýsingu nú sem fyrr. Til að auka aðgengileika allra hlutaðeigandi að auglýstum breytingum höfum við sett upp sérstakan stað á heimasíðunni okkar þar sem settar eru inn þær breytingartillögur sem í auglýsingu eru hverju sinni
  • Þinn staður. Okkar bær. Framtíðarsýn okkar er að Hafnarfjörður verði eitt eftirsóttasta bæjarfélag í landinu til búsetu og atvinnu. Búið er að gefa út tvær skýrslur sem snerta framtíðarsýn sveitarfélagsins og velta upp nokkrum sviðsmyndum m.a. hvað varðar þéttingu byggðar og Flensborgarhöfn. Engar ákvarðanir hafa verið teknar og er ætlunin að marsmánuður verði mánuður samtals um skipulagsmál við íbúa og aðra hlutaðeigandi. Þann 9. mars verður skipulagssýning opnuð í Hafnarborg þar sem tillögur að sviðsmyndum verða settar upp myndrænt. Ég hvet íbúa og alla áhugasama til að sækja þessa viðburði og gefa sér tíma til að skoða þá sýn og sviðsmyndir sem liggja fyrir.

Ég vona að þessi skrif séu upplýsandi og varpi ljósi á hluta þeirra fjölbreyttu verkefna sem í gangi eru hverju sinni hjá okkur. Ég minni íbúa og fyrirtæki á vikulega viðtalstíma mína á þriðjudagsmorgnum þar sem ég tek glaður á móti þeim sem vilja eiga samtal við mig. Viðtalsbókanir eru í síma 585-5506 eða hjá audur@hafnarfjordur.is

Með góðri kveðju Haraldur

Ábendingagátt