Í bæjarfréttum er þetta helst

Fréttir

Í lok hvers mánaðar setur bæjarstjóri saman yfirlit yfir nokkur af þeim verkefnum sem í gangi hafa verið síðasta mánuðinn.  Af mörgu er að taka.

Sumarið er handan við hornið 

Biðin eftir sumrinu, aðeins meiri hlýju og birtu styttist. Daginn er tekið að lengja og hver dagur nú í mars hefur fært okkur nær sumri í ansi mörgu tilliti. Íbúar eru farnir að draga fram hjólin og mikið líf farið að færast yfir bæinn í heild sinni. Á góðum dögum leggur fjöldi íbúa og í auknu mæli ferðamanna leið sína í miðbæ Hafnarfjarðar til að upplifa og njóta, sundlaugar og söfn eru vel sótt og verslun miðsvæðis í blóma. Búið er að opna nokkra nýja staði og þar með veitingastaði víða um bæinn sem strax eru orðnir vel sóttir. Nýr staður er við það að opna í Hafnarborg. Allt lofar þetta góðu með framhaldið.

Hreinni Hafnarfjörður

Hreinsun og umhverfismál eru mér ofarlega í huga þessa dagana. Snjórinn er við það að hverfa af götum bæjarins og kalla næstu dagar og vikur á mikla hreinsun eftir snjóþungan og nokkuð erfiðan vetur. Mikill sandur situr eftir hvorutveggja á göngustígum og götum bæjarins og verða næstu dagar og vikur m.a. tileinkaðar hreinsun á öllum viðeigandi stöðum. Samhliða þarf að skoða gróður, grindverk og kanta sem orðið hafa fyrir átroðningi þennan veturinn. Öll þessi verkefni sem fyrirliggjandi eru koma til með að vinnast best í sameiginlegu átaki allra hlutaðeigandi aðila. Vonir mínar standa til þess að íbúar, nemendur skóla á öllum skólastigum og starfsmenn sveitarfélagsins, stofnana og fyrirtækja á svæðinu taki til hendinni og hreinsi vel og vandlega í sínu nágrenni næstu daga og vikur. Sameiginlega getum við gert Hafnarfjörð hreinni á mjög stuttum tíma og skapað þá ásýnd sem við viljum hafa í fallega Firðinum okkar. Í upphafi maí ætlum við hjá bænum að blása til hreinsunarviku, nánar tiltekið dagana 2. – 12. maí og stendur skipulagning á þeirri viku nú yfir. Það er gaman frá því að segja að nokkur fjöldi íbúa hefur þegar leitað til okkar með hugmyndir að samfélagslegu átaki í hreinsunarmálum. Ég veit að út um allan bæ eru samfélagslega ábyrgir og athafnasamir íbúar sem þessir og að samhent átak geri bæinn okkar hreinan.

Skipulagsmál og lausar lóðir í Hafnarfirði

Fyrirhugaðar breytingar á deiliskipulagi og aðalskipulagi Hafnarfjarðarbæjar eru alltaf auglýstar og þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæti beðnir um að senda inn skriflegar athugasemdir við breytingu innan ákveðins tímafrests. Nú í mars voru í auglýsingu breytingar á deiliskipulagi og aðalskipulagi í Skarðshlíðinni og í apríl eru komnar í auglýsingu breytingar á Hnoðravöllum, Kvistavöllum og Einivöllum. Hvað Skarðshlíð varðar er ráðgert að svæði sem ætlað var fyrir hjúkrunarheimili, heilsugæslu, skóla og leikskóla verði nú skóli og leikskóli og að íbúðabyggð stækki inn á svæði sem ætlað var samfélagsþjónustu. Um mánaðarmótin apríl-maí gerum við ráð fyrir að auglýsa lóðir fyrir fjölbýlishús í Skarðshlíð. Gert er ráð fyrir að í kringum 215 íbúðir verði byggðar á svæðinu næsta árið, m.a. litlar og hentugar íbúðir fyrir barnafjölskyldur. Hvað atvinnulóðir varðar þá hefur eftirspurn verið að aukast til muna og mikill áhugi meðal fyrirtækja á staðsetningu sinna félaga á Völlum og Hellum. Það bendir margt til þess að framkvæmdir við mislæg gatnamót fari vonandi af stað haustið 2016 eða a.m.k. verkið boðið út með verklok 2017 sem eykur til muna aðgengi að hverfi og öryggi.

Viltu bætast í hóp okkar starfsmanna?

Þessa dagana er fjöldi starfa innan Hafnarfjarðarbæjar í auglýsingu. Þessi tími er annatími hjá okkur hvað ráðningar varðar, sumarið framundan og nýtt skólaár. Það eru nokkur fjöldi fjölbreyttra starfa laus til umsókna innan grunnskóla og leikskóla Hafnarfjarðar auk þess sem umsóknarfrestur fyrir skapandi sumarstörf og störf ungmenna eldri en 16 ára er við það að renna út. Opnað verður á skráningar í vinnuskóla í lok mánaðarins.

Líkt og í febrúar hef ég sett saman yfirlit yfir hluta af þeim verkefnum sem við höfum verið að vinna að í mánuðinum.

Stjórnsýsla

  • Styrkir úr minningarsjóði Helgu og Bjarna. Þrjú verkefni hlutu styrk úr Minningarsjóði Helgu og Bjarna í upphafi mánaðar. Smáforritið Orðagull sem eflir orðaforða, vinnsluminni, heyrnræna úrvinnslu og máltjáningu. Heimanámsaðstoð fyrir nemendur af erlendum uppruna auk þess sem Íþróttafélagið Fjörður fékk styrk til að efla íþróttaskóla félagsins.
  • Gler á grenndarstöðvar. Í Hafnarfirði eru grenndargámar á sjö stöðum. Á öllum stöðunum eru gámar fyrir pappír, plast og nú frá því í febrúar fyrir gler. Glersöfnun kemur til með að auka gæði framleiðslu á moltu auk þess sem það nýtist sem fyllingarefni við framkvæmdir og þá með sama hætti og möl. Þetta dregur úr námugreftri og áhrifum slíkra framkvæmda á umhverfið.
  • Glær poki fyrir úrgang. Aukin áhersla er nú lögð á að pappír, pappi, tau og klæði fari í endurvinnslufarveg í stað urðunar. Ekki er lengur leyfilegt að henda svörtum ruslapokum í pressugáma á Sorpu og aðeins tekið á móti úrgangi í glærum pokum. Alltof stór hluti af rusli er pappír og föt og er hér um að ræða eina af þeim leiðum sem farnar eru til að minnka það magn sem fer í urðun frá endurvinnslustöðvum.
  • Bjartir dagar. Menningarhátíðin verður haldin dagana 20. – 24. apríl. Bjartir dagar eru þátttökuhátíð sem byggir á því að öflugir aðilar og einstaklingar taki þátt í að skapa og skipuleggja viðburði. Dagskrá er í smíðum og verður auglýst næstu daga.
  • Reykjavík Loves – samstarf. Vörumerkið Reykjavík Loves verður notað til að markaðssetja höfuðborgarsvæðið í heild til erlendra ferðamanna. Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu ætla að vinna betur saman á sviði markaðsmála, viðburða og upplýsingamála í ferðaþjónustu og vinna í því að dreifa auknum fjölda ferðamanna meira um höfuðborgarsvæðið. Hér í Hafnarfirði höfum við upp á allt að bjóða. Lifandi miðbæ, heillandi hafnarsvæði, ósnortna náttúru, söfn, sundlaugar og alla viðeigandi verslun og þjónustu.
  • Vistvæn prentþjónusta. Við leggjum áherslu á ábyrga notkun á pappír og höfum um árabil lagt áherslu á að draga úr sóun í daglegum rekstri. Fyrir páska skrifuðum við undir nýjan samning við Nýherja um áframhaldandi prentþjónustu þar sem öryggi, umhverfisvernd og lágur prentkostnaður er í forgrunni

Fræðslu- og frístundaþjónusta

  • Samsöngur 200 hafnfirskra barna. Barnakóramót var haldið í Víðistaðakirkju laugardaginn 12. mars þar sem 200 börn frá sex hafnfirskum kórum komu saman og sungu. Barnakóramótið er árlegt og var nú haldið í 19. skipti
  • Ungmennaþing. Ungmennaráð Hafnarfjarðar stóð fyrir Ungmennaþingi í mars en slík þing eru haldin reglulega og þannig skapaður vettvangur fyrir ungt fólk til að koma hugmyndum sínum og skoðunum á framfæri. Umræðuefni þingsins voru umhverfi og skipulag, skólamál, félagslíf og menning og forvarnir. Skólamál þóttu að þessu sinni áhugaverðust.
  • Stóra upplestrarkeppnin 2016. Fjöldi nemenda úr grunnskólum Hafnarfjarðar hlaut viðurkenningu fyrir vandaðan upplestur og framsögn á Stóru upplestrarhátíðinni auk þess sem þrír þeirra bestu voru verðlaunaðir sérstaklega. Húsfyllir var í Hafnarborg og hátíðin greinilega orðin mikilvægur hluti af skóla- og foreldrasamfélagi um land allt. Verkefni sem á upphaflegar rætur sínar að rekja til okkar í Hafnarfirði.
  • Út með dekkjakurlið. Samþykkt hefur verið að skipta út öllu gúmmíkurli á sparkvöllum við grunnskóla bæjarins. Þótt ekki sé vísindalega staðfest að kurlið valdi heilsutjóni þá þykir rík ástæða til að láta notendur valla njóta vafans. Áætluð lok framkvæmda eru haust 2016.
  • Menningardagar í Áslandsskóla. Hafnarfjörður – bærinn minn var þema menningardaga í Áslandsskóla. Skólastarfið var brotið upp á margvíslegan máta og nemendum skipt í hópa þar sem unnið var að fjölbreyttum verkefnum. Salur Áslandsskóla var þétt setinn þegar 3. bekkur flutti söngleik og fleiri bekkir tróðu upp sem leik og skemmtun auk þess að bjóða gesti og gangandi velkomna í stofunnar sínar. Alveg frábært starf sem fram fer þessa daga, starf sem er til mikillar fyrirmyndar.
  • 15 % launahækkun í Vinnuskóla. Hækkun launa 14-16 ára í Vinnuskóla Hafnarfjarðar sumarið 2016 nemur 15%. Vinnuskólinn sinnir fyrst og fremst umhverfismálum og spilar þannig stórt hlutverk í hreinsun og fegrun bæjarins. Áhersla er lögð á fjölbreytt störf og að allir starfsflokkar takist á við ýmis verkefni.

Fjölskylduþjónusta

  • Hjartastuðtæki frá Kiwanis. Hraunborg færði starfstöð þjónustuíbúa fatlaðra á Drekavöllum hjartastuðtæki að gjöf á dögunum en slíkt tæki eykur öryggi íbúa til muna og er sannkölluð lífgjöf.
  • Ný áætlun í barnavernd. Margt hefur áunnist í barnaverndarmálum í Hafnarfirði síðustu árin og sífellt er verið að leita leiða til að gera verkefni skilvirkari og auka tækifæri starfsmanna til að nýta fjölbreyttari aðferðir til úrlausna. Ný framkvæmdaáætlun, sem er mjög verkefnamiðuð, er ein af leiðum bæjarins til að auka skilvirkni og efla samstarf þeirra sem vinna með börnum og barnafjölskyldum.
  • Ný jafnréttisáætlun. Ný jafnréttisáætlun liggur fyrir og er vinna við jafnréttisstefnu einnig vel á veg komin. Markmiðið með áætluninni er að stuðla að jafnrétti kynjanna og að kynja- og jafnréttissjónarmið verði samþætt í starfsemi bæjarins.

Umhverfis- og skipulagsþjónusta

  • Skipulagsbreytingar. Tillögur að breytingum á skipulagi eru í auglýsingu nú sem fyrr, í auglýsingu þessa dagana eru tillögur að breytingu á deiliskipulagi Einivalla 1-3, deiliskipulagi Kvistavalla 10-16 og Hnoðravalla 8-10. Til að auka aðgengileika allra hlutaðeigandi að auglýstum breytingum höfum við sett upp sérstakan stað á heimasíðunni okkar þar sem settar eru inn þær breytingartillögur sem í auglýsingu eru hverju sinni
  • Íbúakönnun um skipulagsmál. Mars hefur verið mánuður samtals um skipulagsmál í Hafnarfirði á opinni vinnustofu í Hafnarborg. Íbúar hafa enn kost á að láta skoðun sína í ljós með þátttöku í könnun um þær sviðsmyndir og tillögur sem í kynningu hafa verið í Hafnarborg. Opið verður fyrir könnun eitthvað áfram.

Ég vona að þessi skrif séu upplýsandi og varpi ljósi á hluta þeirra fjölbreyttu verkefna sem í gangi eru hverju sinni hjá okkur. Ég minni íbúa og fyrirtæki á vikulega viðtalstíma mína á þriðjudagsmorgnum þar sem ég tek glaður á móti þeim sem vilja eiga samtal við mig. Viðtalsbókanir eru í síma 585-5506.

Með góðri kveðju
Haraldur

Ábendingagátt