Í bæjarfréttum er þetta helst…

Fréttir

Mánaðarleg orð og yfirlit bæjarstjóra Hafnarfjarðarbæjar. Bæjarstjóri mun á árinu 2017 fara yfir helstu verkefni hvers mánaðar í nokkrum orðum. Yfirlit og upptalning eru ekki tæmandi en veita mikilvæga innsýn í starfsemi bæjarins.

Orð mánaðarins frá bæjarstjóra Hafnarfjarðarbæjar

Fyrsti mánuðurinn af nýja árinu er nú liðinn og er óhætt að segja að hann hafi liðið ansi hratt enda í mörgu að snúast á stóru heimili, heimili sem við öll viljum sjá vaxa og dafna og munum sjá vaxa og dafna á næstu misserum. Árið 2016 var um margt merkilegt ár og nokkuð langt síðan við gátum siglt með eins mikilli jákvæðni og bjartsýni um betri tíma inn í nýtt ár. Fjárhagsáætlun 2017 lofar góðu um framkvæmdir og aðgerðir sem munu án efa bæta ásýnd bæjarins okkar og þjónustu við íbúa og fyrirtæki. Þessar framkvæmdir eru þegar farnar af stað, jarðvegsvinna hafin við hjúkrunarheimilið á Sólvangi, alútboð við það að fara af stað við nýjan leik- og grunnskóla í Skarðshlíð og skipulagning viðhalds fyrir árið langt komin. Auglýsing um breytt deiliskipulag í Skarðshlíð í loftinu og um leið og því ferli lýkur verður hægt að fara af stað með sölu á lóðum í þessu nýja, fallega og vistvæna hverfi. Fyrirætlanir um þéttingu byggðar halda áfram og það í samtali við viðeigandi aðila. Fundir um skipulagsmál hafa verið vel sóttir, nú síðast fundur um skipulagshugmyndir á Hraunum vestur, hugmyndir sem deiliskipulagsgerð á svæðinu mun koma til með að byggja á.

Í lok mánaðar héldum við málþing um sérúrræði í grunnskólum og málefni nemenda með sérþarfir. Ljóst er að það eru mjög skiptar skoðanir um þær leiðir sem best er að fara í þessum efnum og mikilvægt að rýna betur þörf og möguleika þannig að þróun í skólastarfi svari aukinni eftirspurn, ákalli um breytingar og hafi tilsett áhrif. Það er nauðsynlegt að mæta betur þörfum nemenda, foreldra og kennara og tryggja tækifæri og möguleika allra. Viðkomandi aðilar þurfa að sammælast um næstu skref í þróun á skólastarfinu. Við viljum auka tækifæri og möguleika allra og þurfum að finna leiðir til þess. Ungmennin okkar halda áfram að fara á kostum í námi sínu og félagsstarfi nú síðast á ungmennaþinginu: Nýtt ár! Nýr Hafnarfjörður! og á söngkeppni félagsmiðstöðva Hafnarfjarðar. Tólf atriði tóku þátt í söngkeppninni og í kringum 100 ungmenni í þinginu og verður það að teljast frábær þátttaka.

Ég finn það á samtali við íbúa, starfsmenn og stjórnendur fyrirtækja að það er léttara yfir fólki nú en oft áður og vonast ég til að aukið samstarf og samtal um verkefni og framkvæmdir muni skila árangri og færa okkur nær því fyrirmyndarsamfélagi sem við viljum öll búa í.

Meðfylgjandi er yfirlit yfir nokkur þau verkefni sem í vinnslu hafa verið nú í upphafi árs og stefni ég að því í lok hvers mánaðar að taka saman svona yfirlit okkur öllum til upplýsinga.

  • Nýtt fyrirkomulag á greiðslum húsnæðisbóta. Búið er að færa afgreiðslu húsnæðisbóta frá sveitarfélagi til Vinnumálastofnunar. Hafnarfjarðarbær sér áfram um afgreiðslu á sérstökum húsnæðisstuðningi
  • Áfram til sigurs í Útsvari. Liðið okkar fór með sigur úr býtum eftir harða keppni við Fjallabyggð í upphafi mánaðar. Við hlökkum til að fylgjast með áframhaldandi sigrum liðsins sem hefur staðið sig með mikilli prýði og kann ég þeim fyrir hönd okkur hinna hinar bestu þakkir fyrir.
  • Atvinnumiðstöð Hafnarfjarðar lokaði í upphafi árs. Ástæðan er einföld, atvinnuleysi hefur dregist saman og ekki þörf fyrir þessa sértæku þjónustu áfram. Þjónustan var gull síns tíma og nauðsynleg um árabil.
  • Óskað eftir tilboðum í sláttur og hreinsun. Við ætlum að bæta í í þessum efnum á árinu og munum með utanaðkomandi aðstoð ná betur utan um þessi verkefni, hraða framkvæmdum að vori og gera okkar fólki betur kleift að fylgja slætti og hreinsun eftir allt árið um kring.
  • Umferðarmál í Hafnarfirði – mislæg gatnamót verða að veruleika. Fyrsti áfangasigurinn er unninn en mikilvægt er að þessi framkvæmd haldist í hendur við frekari uppbyggingu og framkvæmdir við stofnvegakerfið í Hafnarfirði. Hafnarfjörður hefur setið eftir þegar kemur að útdeilingu fjármuna vegna framkvæmda við stofnvegakerfið.
  • Vinátta í leikskólum Hafnarfjarðar. Vináttuverkefni Barnaheilla verður innleitt í alla leikskóla Hafnarfjarðar á árinu. Verkefnið miðar að því að kenna ungum börnum heppileg samskipti og vinna gegn útilokun með því að leggja áherslu á vináttu, samkennd og samvinnu í öllum kringumstæðum.
  • Framkvæmdir hafnar við nýtt hjúkrunarheimili. Jarðvegsvinna er hafin og mun hún standa yfir þar til í mars og munu þá frekari framkvæmdir hefjast. Um er að ræða 60 rýma hjúkrunarheimili á svæði sem opnar á ýmsa möguleika í aukinni þjónustu við eldri borgara.
  • Heilahristingur–heimavinnuaðstoð stendur öllum nemendum í 1.–10. bekk í grunnskólum til boða í Bókasafni Hafnarfjarðar alla fimmtudaga frá kl. 15-17.
  • Sandur hjá þjónustumiðstöð. Sem fyrr er hægt að nálgast sand hjá þjónustumiðstöð að Norðurhellu 2 nú á tímum mikillar hálku. Pokar og skófla á staðnum.
  • Málefni nemenda með sérþarfir. Í kringum 150 einstaklingar úr röðum foreldra, kennara. þroskaþjálfa, skólastjórnenda og annarra hagsmunahópa mættu í lok mánaðar á málþing sérúrræði í skólum og málefni nemenda með sérþarfir.
  • Landsleikur í lestri á vegum Allir Lesa talar beint saman við Lestur er lífsins leikur verkefni Hafnarfjarðarbæjar sem í gangi hefur verið síðustu ár. Íbúar eru hvattir til virkrar þátttöku í landsleiknum, allir geta myndað lið og allar tegundir bóka eru gjaldgengar. Ég hvet alla til virkrar þátttöku.
  • Heilsustefna Hafnarfjarðar – drög að heilsustefnu liggja fyrir og erum við þessa dagana með stefnuna í rýni hjá íbúum, starfsmönnum og öðrum áhugasömum. Um leið og rýni hefur átt sér stað verður stefnan fullmótuð og kynnt fyrir bæjarstjórn og vonandi komust við fljótt af stað með innleiðingu hennar. Heilsustefnan miðar að því að hlúa að almennri vellíðan íbúa á öllum aldri, andlegri og líkamlegri.
  • Besti opinberi vefur ársins 2016. Hafnarfjordur.is var á dögunum kosinn besti opinberi vefur ársins 2016. Það er mat dómnefndar að virkilega vel hafi tekist til með nýjan vef Hafnarfjarðarbæjar. Hann þykir einfaldur og auðveldur í notkun, vel uppbyggður og leiðarkerfið skýrt. Vefurinn er samstarfsverkefni okkar allra!
  • Söngkeppni Hafnarfjarðar og fulltrúar okkar á Samfés. Bæjarbíó var á dögunum fullt af hæfileikaríkum hafnfirskum ungmennum þegar söngkeppni félagsmiðstöðva Hafnarfjarðar var haldin. Sigurvegarar voru þær Birta Guðný Árnadóttir úr vitanum og Agnes björk Rúnarsdóttir úr Öldunni.
Ábendingagátt