Í bæjarfréttum er þetta helst…

Fréttir

Bæjarstjóri hefur ákveðið að hafa það sem fastan lið að setja saman nokkur orð um mánaðarmót og segja frá áhugaverðum verkefnum sem í gangi eru innan sveitarfélagsins og upp og ofan af áskorunum, hugmyndum, heimsóknum og fundum mánaðarins. Af mörgu er að taka en með þessu vill bæjarstjóri upplýsa bæjarbúa og aðra hagsmunaaðila betur um gang mála og fyrirætlanir innan sveitarfélagsins.

Orð frá bæjarstjóra eftir mánaðarmót

Ég hef ákveðið að hafa það sem fastan lið að setja saman nokkur orð um mánaðamót til að segja frá áhugaverðum verkefnum sem í gangi eru innan sveitarfélagsins og upp og ofan af áskorunum, hugmyndum, heimsóknum og fundum mánaðarins. Af mörgu er að taka en með þessu vil ég upplýsa bæjarbúa og aðra hagsmunaaðila betur um gang mála og fyrirætlanir innan sveitarfélagsins.  

Sagt er að tíminn líði hratt þegar fjörið er mikið og er það svo sannarlega ekki ofsögum sagt. Fáir dagar eru eins hjá Hafnarfjarðarbæ og mikil verðmæti fólgin í því að spjalla bæði við fólkið sitt og þá sem nýta þjónustu sveitarfélagsins. Starfsmenn sem vinna við að veita þjónustuna hafa góða tilfinningu fyrir því hvað betur má fara sem og íbúar og fyrirtæki sem þiggja og nýta þjónustu okkar. Ég lít á það sem eitt af mínum stóru hlutverkum í starfi bæjarstjóra að hlusta á raddir sem flestra til að fá sem skýrasta mynd af stöðu mála. Þannig getum við best lagað hlutina. Ég vinn svo hugmyndir og ábendingar með sviðsstjórunum mínum sem búa svo vel að hafa í sínum röðum framkvæmdaglaða og vel hugsandi einstaklinga sem hafa hagsmuni heildarinnar í huga í verkefnum sínum og aðgerðum. Þetta fyrirkomulag hefur verið að reynast vel og mun ég eftir megni halda því áfram að hitta sem flesta og leggja mitt að mörkum við að tengja rétta aðila og einstaklinga með það fyrir augum að betrumbæta og greiða veginn fyrir raunhæfum nýjum hugmyndum og tækifærum. Mátturinn liggur nefnilega ekki bara í því hvað við starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar getum gert heldur í því hvað samfélagið í heild sinni getur gert og verðum við því að leggja áherslu á að greiða leið að framkvæmdum og árangri.

Heimsóknir í leikskóla

Síðasta vetur fór ég ásamt fríðu föruneyti á milli grunnskóla Hafnarfjarðar og hitti þar fyrir starfsmenn skólanna – samstarfsfélaga mína – sem hafa það mikla og vandasama hlutverk að mennta börnin okkar stór og smá. Þessar heimsóknir gáfu mér mikið og afrakstur heimsókna var listi yfir hugmyndir að aðgerðum sem væru til þess fallnar að bæta þjónustu grunnskólanna sem og ánægju starfsmanna og þeirra sem njóta þjónustunnar. Þessi listi er nú kominn í hendur aðgerðahóps. Þessa dagana standa yfir sambærilegar heimsóknir til starfsmanna leikskólanna hér í Hafnarfirði. Við höfum þegar heimsótt fimm leikskóla og munum ljúka þessum heimsóknum á vormánuðum. Ég mun í það minnsta hitta rúmlega 500 starfsmenn af um 1800 starfsmönnum sveitarfélagsins í þessum heimsóknum og finn að heimsóknirnar færa mig nær grunnþjónustunni okkar og er tilfinningin strax sú að það eru oft lítil atriði og litlir hlutir sem skipta ótrúlega miklu máli og gera mikið fyrir heildina. Það er nauðsynlegt að vinna í stórum framkvæmdunum líka en við megum ekki gleyma okkur bara við þær. Já – lærdómur þessara heimsókna er mikill og fyrir það er ég þakklátur.

Jákvæð teikn á lofti

Það er nokkuð ljóst að aðhald og bág fjárhagsstaða sveitarfélagsins undanfarin ár hefur ekki bara sett sitt mark á íbúa og fyrirtæki í sveitarfélaginu heldur líka á starfsfólkið okkar. Fólk hefur til þessa átt erfitt með að trúa því að það séu bjartari tímar framundan og að staða sveitarfélagsins sé að vænkast sem er sannarlega raunina. Að einhverju leyti hafa utanaðkomandi breytur þar áhrif en ekki síður breytur sem snúa að rekstri sveitarfélagsins og þeirri hugarfarsbreytingu sem orðið hefur síðustu misseri. Við hjá Hafnarfjarðarbæ höfum verið að stíga varlega til jarðar í mörgu tilliti, lágmarka lántöku, greiða upp óhagstæð lán og framkvæma fyrir eigið fé. Allt gert til að byggja okkur upp til lengri framtíðar litið. Þessi skref eiga að verða til þess að sveitarfélagið haldi áfram að standa vel að vígi þrátt fyrir að sveiflur eigi sér stað í efnahagslífinu þó svo að slíkar sveiflur hafi að sjálfsögðu alltaf einhver áhrif. Það er líka hlutverk okkar starfsmanna að lágmarka áhrif slíkra sveiflna og halda áfram að halda úti þjónustu sem við erum stolt af og kappkostum að bæta.

Þakkir til íbúa og fyrirtækja

Við höldum áfram að horfa bjartsýn fram á veginn. Ég vil nota tækifærið og þakka íbúum innilega fyrir þeirra viðbrögð og þátttöku í mokstri í snjóskotinu sem kom nýlega. Ef allir hreinsa frá niðurföllum, hreinsa frá ruslatunnum sínum og moka í kring hjá sér þá ganga hlutirnir ótrúlega vel fyrir sig. Það sannaði sig fyrir nokkrum dögum síðan. 
Áfram við öll!
Meðfylgjandi er yfirlit yfir fréttir í febrúar og er markmið mitt að setja saman svona yfirlit í lok hvers mánaðar okkur öllum til upplýsinga:

  • 1500 fundur hafnarstjórnar. 1.500 fundur Hafnarstjórnar var haldinn 1. febrúar 2017. Fyrsti fundur „Hafnarnefndar“ var haldinn 9. september 1909. Fyrsta verkefni nefndarinnar var að undirbúa byggingu hafskipabryggju. Það þótti vel við hæfi í tilefni dagsins að á 1.500 fundi Hafnarstjórnar væru kynntar tillögur að frekari hafnarframkvæmdum þ.e. svokölluðum Háabakka sem mun liggja milli Óseyrarbryggju og Suðurbakka, framan við Háagranda og Fornubúðir.
  • Tímasett heildarstefna vegabóta. Áréttað hefur verið við Alþingi og ráðuneyti að mikil þörf er á að marka heildarstefnu varðandi vegabætur á stofnvegakerfi sem liggur í gegnum Hafnarfjörð. Síðustu misseri hefur umferð á þessari leið aukist mjög mikið og sýna tölur glöggt að tvö slysahæstu hringtorgin á höfuðborgarsvæðinu eru hringtorg við Lækjargötu og Flatahraun og eru þau einnig efst á blaði þegar kemur að slysum á ferðamönnum. Þetta þarf að skoða sérstaklega.
  • Dagur leikskólans 6. febrúar. Dagurinn var m.a. haldinn hátíðlegur í leikskólum Hafnarfjarðar og það í áttunda sinn. Dagurinn er helgaður því góða starfi sem fram fer í leikskólum landsins og dregið fram það sem hefur áunnist hefur m.a. með kynningarátakinu Framtíðarstarfið. Aðgerðir innan sveitarfélagsins hafa miðað að því að efla og styrkja faglegt leikskólastarf
  • Jákvæðar forvarnir hafa áhrif. Í sex ár hefur Jón Ragnar Jónsson söngvari, skemmtikraftur, hagfræðingur, fótboltamaður og jákvæð fyrirmynd heimsótt alla nemendur í 8. bekkjum Hafnarfjarðar með fræðslu um heilbrigðan lífstíl og tóbaksvarnir. Jón nær vel til krakkanna og hefur árangurinn ekki látið á sér standa.
  • Ánægja íbúa fer vaxandi. Í Hafnarfirði eru 88% íbúa ánægð með sveitarfélagið sem stað til að búa á, samkvæmt niðurstöðum árlegrar þjónustukönnunar Gallup sem nýlega voru gerðar opinberar. Hafnarfjarðarbær hefur tekið þátt í þessari könnun til fjölda ára og markvisst tekið niðurstöður hvers málaflokks með í sín verkefni og vinnu.
  • Bærinn opnar bókhaldið. Hafnarfjarðarbær hefur tekið ákvörðun um að opna bókhald bæjarins og gera aðgengilegt á heimasíðu sinni. Markmiðið er að auka aðgengi fyrir notendur að fjárhagsupplýsingum og skýra á sem einfaldastan máta og með myndrænum hætti ráðstöfun fjármuna sveitarfélagsins. Nýr raunveruleiki kallar á nýjar lausnir og vill Hafnarfjarðarbær með þessu framtaki svara ákalli um aukinn sýnileika og gegnsæi og jafnframt aukinn áhuga og samfélagsvitund um reksturinn.
  • Viðburða- og verkefnastyrkir. Menningar- og ferðamálanefnd Hafnarfjarðar auglýsir eftir umsóknum um styrki til verkefna og viðburða á sviði menningar og lista í Hafnarfirði. Umsóknum skal skilað inn með rafrænum hætti fyrir 15. mars 2017. Hver umsókn skal aðeins innihalda eitt verkefni.
  • Bjartir dagar – þín þátttaka. Menningarhátíðin verður haldin dagana 19.-23. apríl í tengslum við Sumardaginn fyrsta eins og undanfarin ár. Bjartir dagar er þátttökuhátíð og byggir á því að stofnanir, félagasamtök, fyrirtæki og einstaklingar taki þátt í að skapa viðburði sem tengjast hátíðinni eða taki þátt í þeim dagskrárliðum sem aðrir skipuleggja. Hægt er að senda inn hugmyndir að atriðum til 5. apríl n.k.
  • 43% sölustaða virða ekki aldursmörk. Í lok janúar stóð Hafnarfjarðarbær fyrir könnun á því hvort unglingar gætu keypt sígarettur á sölustöðum tóbaks í Hafnarfirði. Sex sölustaðir seldu unglingunum sígarettur af 14 sölustöðum eða 43% sölustaða sem eru aðgengilegir ungu fólki. Íþrótta- og tómstundanefnd Hafnarfjarðarbæjar lýsti yfir áhyggjum af þessari þróun á fundi sínum í gær og leggur áherslu á það að tíðni þessara kannana verði aukin og að ítreka þurfi við söluaðila að virða aldursmörk.
  • Ný lyfta í Ásvallalaug. Nýlega var sett upp í Ásvallalaug í Hafnarfirði lyfta fyrir fatlað fólk og aðra þá sem almennt eiga erfitt með að komast ofan í stærri laugar. Lyftan sem um ræðir heitir Poolpod og kemur frá Skotlandi. Hún var upphaflega hönnuð fyrir ólympíuleikana í London 2012 og hefur í framhaldinu verið sett upp víða um heim. Lyftan í Ásvallalaug er sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi, öflug og handhæg og uppfyllir allar óskir til búnaðar af þessu tagi. Lyftan er lokahnykkurinn í að gera Ásvallalaug aðgengilega á alla vegu.
  • Loftorka og Suðurverk með lægst boð í mislæg gatnamót. Sameiginlegt tilboð Loftorku Reykjavík ehf. og Suðurverks ehf. var lægst í byggingu mislægra vegamóta á mótum Reykjanesbrautar sunnan Hafnarfjarðar og Krýsuvíkurvegar. Þrjú önnur tilboð bárust. Loftorka og Suðurverk buðu 918 milljónir króna í verkið sem á að vera að fullu lokið 1. nóvember í ár.
  • Starfakynning í Flensborg. Flensborgarskólinn í Hafnarfirði bauð fyrirtækjum, sveitarfélagi og stofnununum að taka þátt í starfa- og menntahlaðborð þann 21. febrúar. Hópur starfsmanna frá Hafnarfjarðarbæ kynnti þar fjölbreytt störf og starfsemi bæjarins en hjá bænum starfa í kringum 1.800 einstaklingar á um 70 starfsstöðvum og er fjölbreytileiki starfanna mjög mikill og kalla þau á ólíka menntun, færni og þekkingu. Stöðluð starfsheiti eru í kringum 150 og menntastigin í störfunum í kringum 237. Garðyrkjufræði, ferðamálafræði, félagsfræði, byggingartæknifræði, fornleifafræði, gunnskólakennarafræði, hagfræði, hjúkrunarfræði, húsasmíði, hönnun, arkitektúr, lögfræði, markaðsfræði, myndlist, tölvunarfræði, vélvirkjun, þjóðfræði, öldrunarfræði og þannig mætti lengi telja.
  • Nýr deildarstjóri hjá fjölskylduþjónustu. Guðrún Frímannsdóttir hefur verið ráðin deildarstjóri stoðþjónustu hjá fjölskylduþjónustu. Guðrún er félagsráðgjafi að mennt og hefur starfað sem slík mestan hluta starfsævinnar. Við bjóðum Guðrúnu velkomna til starfa!
  • Nýr skólastjóri grunnskóla í Skarðshlíð. Ingibjörg Magnúsdóttir, deildarstjóri í Hraunvallaskóla í Hafnarfirði, hefur verið ráðin skólastjóri við grunnskóla í væntanlegum skóla í Skarðshlíð inn af Völlunum í Hafnarfirði. Nýr grunnskóli í Skarðshlíð mun taka til starfa í haust, fyrst í bráðabirgðahúsnæði í safnaðarhúsnæði Ástjarnarsóknar og frá hausti 2018 í nýrri skólabyggingu í Skarðshlíð. Ingibjörg er boðin velkomin til starfa!
  • Sumarstörf fyrir 17 ára og eldri. Hafnarfjarðarbær leitar eftir duglegum og öflugum einstaklingum til starfa í sumar. Til umsóknar eru störf flokkstjóra, leiðbeinenda og aðstoðarleiðbeinenda á íþrótta- og leikjanámskeiðum og í skólagörðum, störf í umhverfis- og garðyrkjuflokkum og hjá Byggðasafni Hafnarfjarðar. Umsóknarfrestur til 24. mars
  • Til hamingju Víðivellir! Leikskólinn Víðivellir fagnaði 40 ára afmæli skólans þann 28. febrúar. Haldið var upp á afmælið með margvíslegum hætti. Gestum var boðið í í afmælissöngstund á sal með elstu börnunum og eftir hádegið fóru börnin í skrúðgöngu um hverfið og sungu hástöfum afmælislagið og söngvana um Víðivelli og Hafnarfjörð. Víðivellir hefur verið rekinn sem skóli án aðgreiningar frá árinu 1992. Í dag eru 126 börn á Víðivöllum og 44 starfsmenn.
Ábendingagátt